Fréttir


Verkefni tengd Orkusparnaði bera árangur

20.9.2012

grimsey-11506Orkusetur er þátttakandi í tveimur evrópuverkefnum á sviði orkunotkunar heimila, annars vegar Promise um möguleika heimila til orkusparnaðar og hinsvegar Octes þar sem áhersla er lögð á orkuvöktun til að auka meðvitund íbúa um orkunotkun.

Grímsey er eini þéttbýlisstaðurinn á Íslandi þar sem olía er notuð sem orkugjafi við húshitun. Þau hús sem þar eru njóta nú þegar niðurgreiðslna frá ríkinu. Niðurgreiðslurnar í Grímsey eru mun hærri heldur en á stöðum þar sem rafhitunar nýtur við en mun dýrara er að greiða niður olíukyndingu heldur en rafhitun. Verkefnið Promise hefur þegar borið þann árangur að ráðist var í það verkefni að skipta um gler í húsum og einangrun með það að markmiði að spara orku. Þetta hefur í för með sér mikinn ávinning fyrir bæði eigandann og ríkið á aðeins fáum árum.

Í verkefninu Octes er áhersla lögð á orkuvöktun til þess að auka meðvitund íbúa um orkunotkun. Orkuvöktunin fer þannig fram að mælir er tengdur við rafmagnstöflu og tölvubúnað sem auðveldar fólki að fylgjast með rafmagnsnotkun íbúðarinnar í gegnum forrit í spjaldtölvu. Orkunotkun er skoðuð á fimm eyjum, Samsø í Danmörku, Tenerife á Spáni, Rhodos á Grikklandi og á íslensku eyjunum Heimaey og Grímsey. Íslensku eyjarnar eiga það sameiginlegt að vera á svæði þar sem ekki eru jarðvarmaveitur.

Fjallað var um verkefnin tvö í fréttaþættinum Speglinum í gær og þar má hlusta á viðtal við Sigurð Inga Friðleifsson framkvæmdastjóra Orkuseturs.