Raforkuhópur Orkuspárnefndar gefur út raforkuspá
Raforkuhópur Orkuspárnefndar hefur farið yfir forsendur síðustu raforkuspár, frá 2010, út frá nýjum gögnum sem borist hafa frá því spáin kom út.
Hafa ber í huga þegar tölur eru nú bornar saman við eldri spár að framsetning breytist nokkuð vegna nýs skipulags raforkukerfisins. Flutningskerfið er umfangsmeira nú en áður en á móti kemur að töp í spennum virkjana eru ekki lengur talin til flutningstapa heldur koma þau hér fram sem notkun vinnslufyrirtækja þar sem þau eiga spennana. Önnur notkun í og við virkjanir er nú flokkuð sem afhending beint frá vinnslufyrirtækjum en var áður ekki greind frá afhendingu dreifiveitna og var þá flokkuð með veitum.
Raforkuvinnsla rafveitna árið 2011 var alls 17.210 GWh og var hún 342 GWh minni en spáin frá 2010 gerði ráð fyrir og heildarálag á kerfið var 24 MW minna en áætlað var. Stafar þetta frávik aðallega af minni notkun stóriðju og minni flutningstöpum. Notkun stóriðju var 299 GWh minni en spáin frá 2010 gerði ráð fyrir og flutningstöp voru 80 GWh minni en spáin. Úttekt vinnslufyrirtækja var 15 GWh umfram spá. Ótryggð orka til almennra nota var 22 GWh meiri en spáð var. Ef einungis er litið á forgangsorku almenns markaðar var hún 1 GWh meiri en spáin gerði ráð fyrir.
Mesta aflþörf raforkukerfisins árið 2011 varð þann 7. desember milli klukkan 18 og 19 og var þá meðalálag á orkuver kerfisins 2.189 MW og hafði aukist um 7 MW frá árinu á undan. Aflþörf almenningsveitna var á þeim tímapunkti 558 MW, þörf stóriðjufyrirtækja var 1.561 MW, vinnslufyrirtækja 55 MW og töp í flutningskerfinu námu 53 MW eða 2,4%.
Samkvæmt þessari spá mun almenn notkun forgangsorku aukast um 7% fram til 2015 og um 90% alls til 2050 og eru dreifitöp og notkun vinnslufyrirtækja meðtalin. Árleg aukning notkunar er 1,7% að meðaltali næstu 39 árin.
Áætluð almenn forgangsorka hefur við þennan endurreikning aukist um 30 GWh fram til ársins 2017 en aftur á móti dregist saman um 40 GWh fram til ársins 2040 miðað við spána frá 2010 og 12 GWh árið 2050. Aukin notkun er í iðnaði yfir spátímabilið, á móti kemur minni notkun í þjónustu og á heimilum. Meginskýring minni notkunar heimila er að forsendur um raforkunotkun heimila er breytt og hún áætluð minna en í spánni frá 2010. Einnig er fólksfjöldi minni í lok tímabilsins, sem dregur úr raforkunotkun heimila. Einnig er ýmsum öðrum forsendum spálíkansins breytt í samræmi við nýjar rauntölur og þjóðhagsspár.