Fréttir


Meistarafyrirlestur – verkefni styrkt af Orkjusjóði 2012

7.9.2012

Reynir Smári Atlason flytur fyrirlestur um verkefni sitt til meistaraprófs í umhverfis- og auðlindafræði frá Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild Háskóla Íslands þann 11. september í VR-II stofu 158.

Verkefnið sem styrkt var af Orkusjóði ber heitið “Energy return on investment of geothermal and hydro power plants and their respective energy payback time”.

Í ritgerð þessari er orkuarðsemi Nesjavallavirkjunar og Fljótsdalsstöðvar borin saman. Í ritgerðinni er notast við aðferðafræði sem nýverið var sett fram svo samanburður sé mögulegur á samskonar rannsóknum. Orkuarðsemi jarðvarmavirkjunar hefur ekki verið birt síðan 1979. Gögnum varðandi byggingarefni, viðhald og eigin notkun virkjananna var safnað frá eigendum virkjananna sem og tengdum fyrirtækjum staðið hafa í rekstri og byggingu tengdra mannvirkja. Þannig má ætla að nákvæm niðurstaða hafi fengist þar sem raungögn voru notuð. Niðurstöður sýna að Nesjavallavirkjun skilar um það bil 33 einingum til baka til samfélagsins fyrir hverja eina sem fór í að byggja hana og reka yfir fyrstu 40 ár hennar. Fljótsdalsstöð skilaði betri niðurstöðum þar sem hún skilar um það bil 112 einingum fyrir hverja eina sem hún notar fyrir fyrstu 100 ár hennar í rekstri. Eigin notkun virkjananna var langt um orkufrekasti partur rekstrarins. Athuguð var orkuarðsemi Nesjavalla ef framleiðsla á heitu vatni væri ekki til staðar, niðurstaðan leiddi í ljós að orkuarðsemi á rafmagnsframleiðslu frá jarðvarma hefur lítið aukist síðan 1979, þar sem mjög líkar niðurstöður fengust, eða um það bil 9:1. Hinsvegar má á sama hátt sjá hvernig framleiðsla á heitu vatni eykur orkuarðsemi gríðarlega. Endurgreiðslutími orku var einnig reiknaður, þar kom í ljós að Nesjavallavirkjun var sneggri að ná EROI 1:1 en Fljótsdalsstöð var fljótari að greiða til baka alla þá orku sem hún notar yfir líftíma sinn. Sem almenna ályktun, má halda því fram að Vatnsaflsvirkjanir skili mun betri orkuarðsemi en jarðvarmavirkjanir.

Leiðbeinandi: Rúnar Unnþórsson

Prófdómari: Egill Benedikt Hreinsson