Fréttir


Tilkynning um gögn í gagnagrunni Orkustofnunar

22.8.2012

Á vegum Orkustofnunar hefur verið  starfræktur gagnagrunnur, sem byggir meðal annars á eldri rannsóknagögnum. Það er stefna Orkustofnunar að veita skuli aðgang að þeim gögnum stofnunarinnar sem ekki eru bundin kvöðum vegna höfundaréttar eða annarra réttinda þriðja aðila.

Gagnagrunnurinn byggir á eldri rannsóknum og öðru efni sem varð til á Orkustofnun fyrir uppskiptingu stofnunarinnar í annars vegar Orkustofnun og hins vegar Íslenskar orkurannsóknir (ÍSOR) eða Vatnamælingar undir nýrri Veðurstofu Íslands. Gagnagrunninum var ætlað að varðveita og gera aðgengileg á einum stað gögn um orku- og auðlindamál, jarðvísindi, náttúrufar og jarðrænar auðlindir.  Af samkeppnisástæðum og vegna þarfa annarra aðila til að fá aðgengi að efni úr grunninum, var nauðsynlegt að skipta honum upp milli  ÍSOR og Orkustofnunar og hefur það verið gert milli aðilanna. Sama gildir um skiptingu milli nýrrar Veðurstofu Íslands og Orkustofnunar.

Það er stefna Orkustofnunar að veita skuli aðgang að þeim gögnum stofnunarinnar sem ekki eru bundin kvöðum vegna höfundaréttar eða annarra réttinda þriðja aðila. Sá aðgangur er yfirleitt án endurgjalds fyrir gögnin sjálf, en heimilt er að innheimta sannanlegan kostnað við framreiðslu og afhendingu gagna. Samræmd yfirlit yfir gagnasöfn sem hafa verið byggð upp á liðnum  árum liggja fyrir, þannig að ljóst er annars vegar hvaða gögn hafa verið unnin fyrir opinbert fé og hins vegar hvaða gögn eru frá öðrum og hvaða gögn eru háð kvöðum um afhendingu til þriðja aðila. Á þessu kunna þó að vera einhverjir hnökrar sem Orkustofnun er ekki kunnugt um.

Það er þess vegna álit Orkustofnunar að öll gögn í gagnagrunni stofnunarinnar, fimm ára eða eldri, við birtingu þessararar tilkynningar, sem varða orkulindir og aðrar jarðrænar auðlindir, nýtingu þeirra og orkubúskap landsmanna og hafa ekki verið aðgreind sérstaklega sem eign annarra rannsóknaraðila, séu opinber gögn sem Orkustofnun getur miðlað til stjórnvalda og almennings í samræmi við hlutverk Orkustofnunar skv. lögum nr.  87/2003.

Orkustofnun skorar hér með á þá aðila sem telja sig eiga gögn í gagnagrunni Orkustofnunar sem bundin eru kvöðum vegna höfundaréttar eða annarra réttinda þriðja aðila, að koma þeim upplýsingum á framfæri við Orkustofnun, Grensásvegi 9, 108 Reykjavík, fyrir 31. desember 2012,  þar sem umrædd gögn eru tilgreind sérstaklega og sönnur færðar á þær kvaðir sem á þeim kunna að hvíla.