Fréttir


Tvær umsóknir um rannsóknarleyfi vegna virkjana í Skjálfandafljóti

16.7.2012

Orkustofnun hefur nú til umfjöllunar tvær umsóknir er skarast um rannsóknarleyfi vegna fyrirhugaðra virkjana í Skjálfandafljóti, annars vegar frá Landsvirkjun vegna virkjana í ofanverðu fljótinu og hins vegar frá Hrafnabjargavirkjun hf. vegna virkjunar við Hrafnabjörg.

Hrafnabjargavirkjun hf. er hlutafélag í meirihlutaeigu Orkuveitu Reykjavíkur, en auk þess eiga hlut í félaginu Norðurorka, Orkuveita Húsavíkur og Þingeyjarsveit. Samkvæmt auðlindalögum skal rannsóknarleyfi aðeins veitt einum aðila á hverju svæði.

Umsóknir Landsvirkjunar og Hrafnabjargavirkjunar hf.  eru nú til umsagnar hjá lögbundnum umsagnaraðilum, þ.e. umhverfisráðuneyti og landeigendum, en að þeim umsögnum fengnum mun Orkustofnun taka umsóknirnar til formlegrar afgreiðslu lögum samkvæmt. Rétt er að taka fram að rannsóknarleyfi vegna virkjana veita ekki fyrirheit um forgang að virkjunarleyfi síðar á viðkomandi svæði.