Fréttir


Náttúran, auðlindirnar og nýja stjórnarskráin – Hvaða áhrif mun ný stjórnarskrá hafa á auðlindanýtingu og náttúruvernd?

16.5.2012

Í erindi sínu á fundi stjórnarskrárfélagsins fjallaði Kristinn Einarsson, yfirverkefnistjóri, meðal annars um hlutverk Orkustofnunar og þær breytingar sem hafa orðið og eru fyrirséðar,  þá setti hann þær í samhengi við það sem segir um auðlindamálin í tillögu að nýrri stjórnarskrá sem stjórnlagaráð hefur lagt fram.

Á fundinum rakti hann að auki þau ákvæði sem hafa mesta þýðingu fyrir starfsemi Orkustofnunar en þau fjalla um náttúruauðlindir og nýtingu þeirra og eru í 34. grein. Þar segir: „Auðlindir í náttúru Íslands, sem ekki eru í einkaeigu, eru sameiginleg og ævarandi eign þjóðarinnar. Enginn getur fengið auðlindirnar, eða réttindi tengd þeim, til eignar eða varanlegra afnota og aldrei má selja þær eða veðsetja. Til auðlinda í þjóðareign teljast náttúrugæði, svo sem nytjastofnar, aðrar auðlindir hafs og hafsbotns innan íslenskrar lögsögu og uppsprettur vatns­ og virkjunarréttinda, jarðhita og námaréttinda. Með lögum má kveða á um þjóðareign á auðlindum undir tiltekinni dýpt frá yfirborði jarðar. Við nýtingu auðlindanna skal hafa sjálfbæra þróun og almannahag að leiðarljósi. Stjórnvöld bera, ásamt þeim sem nýta auðlindirnar, ábyrgð á vernd þeirra. Stjórnvöld geta á grundvelli laga veitt leyfi til afnota eða hagnýtingar auðlinda eða annarra takmarkaðra almannagæða, gegn fullu gjaldi og til tiltekins hóflegs tíma í senn. Slík leyfi skal veita á jafnræðisgrundvelli og þau leiða aldrei til eignarréttar eða óafturkallanlegs forræðis yfir auðlindunum.“

Þá sagði Kristinn það vera nýmæli í þessari grein að það er opnað á takmarkanir eignarréttar fyrir auðlindir undir ákveðnum dýptarmörkum. Ákvæði 34. greinar um að auðlindir í náttúru Íslands, sem ekki eru í einkaeigu, séu sameiginleg og ævarandi eign þjóðarinnar má skoða hliðstætt við núverandi löggjöf, sem kveður á um að orkulindir sem eru í eigu opinberra aðila, þ.e. ríkis og sveitarfélaga megi ekki selja einkaaðilum. Ennfremur að ef við lítum þannig á að auðlindir í eigu sveitarfélaga séu hluti af eign þjóðarinnar og uppfylli þessi skilyrði, er eftirleikurinn tiltölulega einfaldur og svipaður því lagaumhverfi sem við höfum nú, en ef við skilgreinum þjóðareign þannig að hún feli í sér að ríkisvaldið fari með eignaréttinn, þá sjáum við fram á erfið uppgjörsmál framundan sagði Kristinn á fundinum. Löggjafinn gæti nýtt heimild sína til þess að takmarka einkaeignarréttinn við ákveðið dýpi þannig að nýtingarréttur

neðan þeirra marka verði þá þjóðareign. Slík ákvæði eru algeng í löggjöf annarra ríkja og þykja þar eðlileg. Ef mörkin yrðu t.d. sett við 1 km þá myndu allflest háhitasvæði verða í þjóðareign. 

Erindið má nálgast í heild sinni hér.