Fréttir


Orkustofnun svarar ásökunum Landverndar

11.5.2012

Í kjölfar þess að formaður Landverndar hefur ásakað Orkustofnun um að starfsmaður stofnunarinnar, Skúli Thoroddsen, hafi verið vanhæfur til að undirrita umsögn stofnunarinnar um þingsályktunartillögu um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða, vill Orkustofnun koma eftirfarandi á framfæri.

Umsögn Orkustofnunar vegna fyrrgreindrar þingsályktunartillögu var send þann 8. maí síðastliðinn. Umsögnina undirritar staðgengill orkumálastjóra, Kristinn Einarsson, yfirverkefnisstjóri auðlindanýtingar, svo og Skúli Thoroddsen lögfræðingur. Í niðurlagi umsagnarinnar kemur skýrt fram að undirritað sé fyrir hönd orkumálastjóra enda er umsögnin á hans ábyrgð. Orkumálastjóri var fjarverandi þann dag vegna starfa sinna og því undirritar hana staðgengill hans. Þá ber við ákvarðanatöku allra meiri háttar mála hjá Orkustofnun að hafa tvær undirskriftir og ritar því lögfræðingur með staðgengli. Það kemur þó ekki í veg fyrir að umrædd umsögn er skoðun stofnunarinnar og á ábyrgð orkumálastjóra sem hana hefur ritað eða samþykkt í þeirri mynd sem hún er gefin út.

Þess er ávallt gætt að niðurstöður Orkustofnunar séu byggðar á faglegum forsendum og ekki á persónulegum skoðunum einstakra starfsmanna, birtra eða óbirtra. Í mikilvægum málum, þar sem erfið álitamál koma til umfjöllunar, er þess alltaf gætt að fleiri starfsmenn komi að umfjöllun og afgreiðslu málsins og svo var einnig í þessu tilfelli.

Það verður því ekki hjá því litið, að ef velkjast á í vafa um hæfi starfsmanna Orkustofnunar til þess að undirrita umsögn, beri fremur að skoða hæfi orkumálastjóra, sem ábyrgur er fyrir útgáfu og efni  umsagnarinnar, fremur en starfsmanna hans. Í upphafi þeirrar umsagnar sem hér um ræðir er sérstaklega vakin á því athygli að orkumálastjóri hafi setið í verkefnisstjórn rammaáætlunar og að hann hafi verið formaður faghóps IV. Orkustofnun sé því aðili máls og sjái ekki til þess ástæðu að tjá sig um megin efnisþætti þingsályktunartillögunnar að öðru leyti en því að hún víki frá faglegum niðurstöðum verkefnisstjórnarinnar og upphaflegri þingsályktunartillögu.

Orkustofnun vísar því þar með á bug að undir umsögn stofnunarinnar hafi undirritað vanhæfur starfsmaður enda sé umsögnin á ábyrgð orkumálastjóra.

 

Guðni A. Jóhannesson

Orkumálastjóri