Fréttir


Orkustofnun, Rannís og  stjórnsýslustofnanir átta annarra Evrópulanda hljóta styrk að upphæð tæpum 2 milljónum evra

27.4.2012

Orkustofnun, Rannís og  stjórnsýslustofnanir átta annarra Evrópulanda hljóta styrk að upphæð tæpum 2 milljónum evra úr 7. Rammaáætlun Evrópusambandsins í þágu jarðhitaþróunar í Evrópu. Orkustofnun sem fer með stjórn verkefnisins fær um 600.000 evrur til verkefnisins. 

 

Markmið ERA-NET áætlunarinnar er að auka samstarf og samhæfingu rannsókna og rannsóknaáætlana í Evrópulöndum.  

Síðastliðinn vetur stóð Orkustofnun, í samvinnu við GEORG – rannsóknarklasa í jarðhita og Rannís, að styrkumsókn um ERA-NET í jarðvarma, GEOTHERMAL ERA-NET til framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Að umsókninni stóðu, auk Orkustofnunar, Rannís og stjórnsýslustofnanir átta annarra Evrópulanda, þ.e. frá Hollandi, Frakklandi, Sviss, Þýskalandi, Ítalíu, Ungverjalandi, Tyrklandi og Slóvakíu. Við val á ríkjum til samstarfsins var meðal annars litið til þeirra markmiða varðandi nýtingu á jarðhita og hvernig þær aðgerðir samræmast markmiðum Evrópusambandsins til þess að draga úr losun koltvísýrings (CO2) til áranna 2020 og 2050. 

GEOTHERMAL ERA NET samstarfið er til fjögurra ára og er fyrirséð að verkefnið muni stuðla að auknu fjárflæði til jarðhitarannsókna í Evrópu sem aftur gæti þýtt ný verkefni á sviði jarðhitanýtingar. Systurstofnanir Orkustofnunar í Evrópu og ráðuneyti geta þá sett sér sameiginleg markmið, en eitt af markmiðum GEOTHERMAL ERA-NET er að byggja upp sameiginlegan gagnagrunn í jarðhita.

GEOTHERMAL ERA NET er frábrugðið hefðbundnum rannsóknarverkefnum að því leiti að hér er veittur styrkur til samþættingar og samræmingar á rannsóknaráætlunum landanna sem að samstarfinu standa en ekki til eiginlegrar rannsóknarvinnu.  Því má segja að ERA NET sé fyrsta skrefið í átt að samræmdri rannsóknaráætlun innan Evrópusambandsins í gegnum hið svokallaða SET PLAN (European Strategic Energy Technology Plan). 

 

Verkefninu er skipt upp í sjö verkþætti og lýsir myndin hér að neðan samþættingu þeirra innbyrðis.

 

ERA---NET---


Tölulegar staðreyndir um jarðhita í Evrópu

Í Evrópu í dag er jarðhiti einungis nýttur til að framleiða 1,5 GWe af raforku, aðallega á Íslandi og Ítalíu. Hinsvegar er áætlað að hægt sé að virkja jarðhita í Evrópu sem samsvarar um 80-100 GWe. Sóknarfærin eru því mikil en markmið alþjóðlegu orkumálastofnunarinnar er að auka rafmagnsframleiðslu með jarðhita í 3-6 GWe og notkun orku til húshitunar eða kælingar í 39-60 GW fyrir árið 2020. Langtímamarkmiðin ná til ársins 2050 en þá er áætlað að rafmagnsframleiðsla með jarðvarma verði komin í 15-30 GWe og bein nýting jarðvarma til  húshitunar eða kælingar komin í allt að 300 GWe.