Fréttir


Uppgjöri tekjumarka Landsnets fyrir árin 2006-2010 er nú lokið

27.4.2012

Orkustofnun hefur nú lokið við uppgjör tekjumarka Landsnets fyrir árin 2006-2010. Samkvæmt raforkulögum, nr. 65/2003, skal Orkustofnun setja flutningsfyrirtækinu tekjumörk, en tekjumörk eru þær hámarkstekjur sem fyrirtækinu er leyfilegt að innheimta með gjaldskrá sinni og eru í aðalatriðum ákveðin út frá rekstrarkostnaði, arðsemi og afskriftum.

Tekjumörkum fyrirtækisins er skipt á milli flutnings raforku og kerfisþjónustu annars vegar, og á milli stórnotenda og dreifiveitna hins vegar. Samkvæmt fyrrgreindum lögum á Orkustofnun að setja tekjumörk fyrir hvert svokallað tekjumarkatímabil sem tilgreint er í lögunum, og gera þau upp árlega. Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum hefur dregist að ljúka við uppgjör tekjumarka og skal hér í stuttu máli gerð grein fyrir ástæðum þess.

Þegar Landsnet var stofnað árið 2005 var hlutfall raforku til almennra notenda um 37% af heildarraforkunotkun landsins á meðan hlutfall stórnotenda var 63%. Á síðustu árum hefur notkun almennings verið að mestu óbreytt á meðan raforkunotkun stórnotenda hefur nær þrefaldast.

Við stofnun Landsnets var miðað við föst skiptihlutföll eignagrunns milli almennings og stórnotenda, en frá árinu 2007 endurspegluðu þau ekki lengur þær miklu breytingar sem urðu á orkunotkun stórnotenda. Arðsemisþáttur tekjumarka byggist á virði eignagrunns og því er mikilvægt að eignagrunnur, vegna stórnotenda annars vegar og almennings hins vegar, sé sem best skilgreindur fyrir hvorn notkunarhóp. Í nóvember 2007 benti Orkustofnun á að nauðsynlegt væri að þróa aðferðafræði við skiptingu eignagrunns Landsnets sem tæki mið af örum breytingum  raforkunotkunar og endurspeglaði nauðsynlegar og eðlilegar leiðréttingar á tekjumörkum notkunarhópanna með tilliti til breyttrar nýtingar á flutningskerfinu. Þegar Landsnet hafði skilað nýjum eignagrunni vorið 2011 var hafist handa við að gera upp tekjumörk þeirra ára sem voru enn óuppgerð þ.e. vegna áranna 2006 til 2010.

Í nóvember 2011 sendi Orkustofnun Landsneti uppgjör fyrir árin 2006-2010 samkvæmt hinum nýju samþykktu skiptireglum en að beiðni Landsnets voru þau afturkölluð, þar sem Landsnet var ósátt við  aðferðafræði ákveðinna þátta uppgjöranna. Í kjölfarið voru ákveðnar breytingar gerðar á aðferðafræðinni sem notuð var við uppgjörin.

 Niðurstöður uppgjöra sem send voru Landsneti eru eftirfarandi, í þúsundum króna:


2006 2007 2008 2009 2010
Tekjumörk
Flutningur til almennra notenda 2.579.868 2.659.639 2.713.937 2.838.570 3.314.973
Flutningur til stórnotenda 2.788.611 3.630.075 5.925.465 6.170.163 5.805.662
Kerfisþjónusta 910.030 1.313.717 1.550.607 1.626.571 1.569.060
Samtals 6.278.509 7.603.430 10.190.009 10.635.304 10.689.694


Tekjur
Flutningur til almennra notenda 3.180.978 2.994.433 3.056.355 3.095.028 3.264.923
Flutningur til stórnotenda 2.308.703 2.654.841 6.138.089 8.503.095 8.117.834
Kerfisþjónusta 922.530 1.313.935 1.658.268 1.696.261 1.424.403
Samtals 6.412.211 6.963.208 10.852.711 13.294.384 12.807.160


Yfirdráttur á tekjumörkum
Flutningur til almennra notenda 601.110 334.794 342.418 256.458 -50.050
Flutningur til stórnotenda -479.908 -975.234 212.624 2.332.932 2.312.172
Kerfisþjónusta 12.500 218 107.661 69.690 -144.657
Samtals 133.702 -640.222 662.703 2.659.080 2.117.465

 

Þar sem yfirdráttur tekjumarka er ekki verðbættur eru uppsafnaðar ofteknar tekjur flutningsfyrirtækisins Landsnets 5 milljarðar króna í árslok 2010, sem skiptist milli almennra notenda, 1,6 milljarðar, og stórnotenda, 3,4 milljarðar. Til útskýringar má einnig nefna að skipting oftekinna tekna milli stórnotenda og almennra notenda lá ekki fyrir fyrr en endurskoðun eignagrunns var lokið vorið 2011, og mikill gengismunur myndaðist á árunum 2009-2010 þar sem stórnotendur höfðu síðan 2007 greitt samkvæmt gjaldskrá í bandaríkjadölum. Samkvæmt II. bráðabrigðaákvæði laga nr. 19/2011 um breytingu á raforkulögum skal Landsnet endurgreiða yfirdráttinn fyrir lok ársins 2020 en þá mega uppsafnaðar ofteknar tekjur flutningsfyrirtækisins ekki nema meiru en 10% af uppfærðum tekjumörkum.

Í kjölfar þessa máls hefur Orkustofnun ákveðið að skjalfesta verði verklagsreglur um setningu og uppgjör tekjumarka fyrir flutningsfyrirtækið og dreifiveitur. Ætlunin er að slíkar verklagsreglur verði fullunnar fyrir september næstkomandi.