Fréttir


Eldsneytisspá 2012-2050

24.4.2012

Eldsneytishópur Orkuspárnefndar hefur gefið út nýja eldsneytisspá sem nær allt til ársins 2050.

Eldsneytishópur orkuspárnefndar hefur gefið út nýja spá um eldsneytisnotkun hér á landi sem nær fram á miðja þessa öld. Spáin er endurreikningur eldsneytisspár frá 2008 þar sem tekið er mið af nýjum gögnum sem borist hafa frá því spáin 2008 kom út.

Innlend notkun olíu árið 2011 reyndist minni en spáin 2008 gerði ráð fyrir og það sama var uppi á teningnum með millilandanotkunina sem var töluvert minni en spáð hafði verið. Niðursveiflan sem hófst árið 2008 var enda ekki fyrirséð þegar spáin kom út, og olíuverð hefur einnig verið hærra en ráð var fyrir gert í spánni 2008. Sömuleiðis minnkaði kolanotkun og gasnotkun umtalsvert miðað við spána 2008 vegna minni notkunar í iðnaði og stóriðju. 

Spáin 2012 gerir einnig ráð fyrir bæði minni innanlands- og millilandanotkun olíu árið 2050 en gert var ráð fyrir í spánni 2008. Þegar horft er á einstaka notkunarflokka eru breytingar mestar í notkun tækja og flugvéla. Samhliða efnahagssamdrætti undanfarinna ára og minnkun verklegra framkvæmda hefur notkun á eldsneyti minnkað sem skilar sér í minni notkun fyrstu ár spátímabilsins en eldri spá gerði ráð fyrir. Til lengri tíma litið minnkar síðan frávikið milli endurreiknaðrar spár og spár frá 2008. Varðandi millilandanotkunina hefur frávikið frá spánni 2008 farið minnkandi síðustu tvö ár enda hefur notkun í millilandaflugi vaxið hratt.

Segja má að varðandi innanlandsnotkunina sé því spáð að tækniframfarir, orkusparnaður og nýir orkugjafar haldi í við aukna orkuþörf vegna fólksfjölgunar svo sem hvað varðar bíla og iðnað en að tækniframfarirnar verði hæggengari þegar kemur að millilandanotkuninni og þar hafi fólksfjölgun og hagvöxtur mikil áhrif á notkunina.

Nánari upplýsingar um eldsneytisspá veitir Ágústa Loftsdóttir, formaður eldsneytishópsins, sími 568 6086, netfang asl@os.is.