Fréttir


Afstaða til útgáfu sérleyfa mun liggja fyrir í síðasta lagi í nóvember 2012

23.4.2012

Orkustofnun vinnur að mati á umsóknum sem bárust í öðru útboði á Drekasvæðinu.

Við mat á umsóknunum þremur er tekið mið af rannsóknaráætlun, tæknilegri getu og reynslu og fjárhagslegum styrk umsækjenda í fyrirfram ákveðnum hlutföllum. Jafnframt verður leitað umsagna lögboðinna umsagnaraðila, umhverfisráðuneytis og sjávarútvegs - og landbúnaðarráðuneytis og er þess að vænta að þær umsagnir liggi fyrir snemmsumars.
Umsækjendum gefst þá kostur á að tjá sig um umsagnirnar og gera við þær athugasemdir, eftir atvikum. Þá mun einnig liggja fyrir mat Orkustofnunar á umsóknum.

Orkustofnun gerir ráð fyrir að afstaða verði tekin til útgáfu sérleyfa, vegna þeirra umsókna sem fyrir liggja, fljótlega að loknum sumarleyfum og eigi síðar en í nóvember 2012. Ef sérleyfi til rannsókna og vinnslu kolvetnis verða veitt þá taka við rannsóknir á svæðinu samkvæmt áætlun leyfishafa og þeim skilmálum sem getið verður um í sérleyfunum og Orkustofnun setur samkvæmt lögum.