Fréttir


Orkustofnun bárust þrjár umsóknir um sérleyfi til rannsókna og vinnslu kolvetnis á Drekasvæðinu

2.4.2012

Orkustofnun fer með leyfisveitingavald samkvæmt lögum nr.13/2001 um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis. Annað útboð vegna sérleyfa á Drekasvæðinu hófst þann 3. október 2011 og lauk í dag, 2. apríl. 


Eftirtalin fyrirtæki sóttu um sérleyfi:

·       Eykon, óskráð félag.

·       Faroe Petroleum og Íslenskt kolvetni ehf.

·       Valiant Petroleum og Kolvetni ehf.


Við veitingu leyfa verður þess gætt að nýting auðlindanna sé hagkvæm frá þjóðhagslegu sjónarmiði og að tekið sé tillit til umhverfissjónarmiða. Við mat Orkustofnunar á umsóknum er tekið mið af rannsóknaráætlun, tæknilegri getu og reynslu og fjárhagslegum styrk umsækjenda í fyrirfram ákveðnum hlutföllum.

Orkustofnun stefnir að því að leita lögboðinna umsagna og afgreiða umsóknir fyrir lok nóvember 2012. Ef sérleyfi til rannsókna og vinnslu kolvetnis verða veitt þá taka við rannsóknir á svæðinu samkvæmt áætlun leyfishafa og þeim skilmálum sem getið verður um í sérleyfum og sett eru af Orkustofnun samkvæmt lögum.

Á milli Íslands og Noregs ríkir samkomulag frá 1981 sem felur í sér að Norðmenn hafi rétt á allt að 25% þátttöku í sérleyfum á svæði sem nær yfir hluta af Drekasvæðinu. Ef sótt er um á samkomulagssvæðinu þá mun Orkustofnun senda eintak af slíkum umsóknum til Noregs. Eftir að Norðmenn hafa móttekið drög að leyfi á grundvelli umsóknarinnar hafa þeir þrjátíu daga til að ákveða hvort þeir vilji nýta sinn rétt til þátttöku í viðkomandi leyfi.

Um aðdraganda útboðsins

Í lok fyrstu umferðar útboða á sérleyfum leitaði Orkustofnun eftir athugasemdum frá olíufélögunum sem sýndu útboðinu áhuga með það að markmiði að safna upplýsingum til þess að hægt væri að bæta löggjöf og önnur skilyrði fyrir umsækjendur eftir atvikum. Fjármálaráðuneytið stofnaði vinnuhóp sem annaðist endurskoðun á lögum um skattlagningu kolvetnisvinnslu.  Í september 2011 samþykkti Alþingi ný heildarlög um skattlagningu kolvetnisvinnslu.

Iðnarráðherra lagði fram tillögur að breytingum á kolvetnislögunum sem voru samþykktar í september 2011. Kolvetnislögum var breytt meðal annars til að bregðast við athugasemdum frá eftirlitsstofnun EFTA og samkvæmt ábendingum frá norska olíu - og orkumálaráðuneytinu.

Orkustofnun bætti við, að norskri fyrirmynd, stöðluðum samstarfssamningi um framkvæmd leyfisins við útboðsgögnin. Um er að ræða samning sem handhafar leyfisins gera sín á milli séu þeir fleiri en einn.

Ýmsar fleiri breytingar voru gerðar á útboðsskjölum svo sem útboðslýsingu sem byggðu á reynslu frá fyrsta útboðinu.

Rannsóknarniðurstöður á útboðstímabili

Rannsóknir olíuleitarfélaganna TGS og Volcanic Basin Petroleum Research (VBPR) á Drekasvæðinu frá því í sumar voru mjög jákvæðar. Niðurstöður rannsóknanna sýndu að olíu væri að finna á Drekasvæðinu en frekari rannsóknir þurfa að fara fram til þess að hægt sé að segja hversu mikil olían er og hvort hún sé vinnanleg.

Félögin söfnuðu sýnum úr 1000 m háum hamri á hafsbotni í samræmi við leitarleyfi sem Orkustofnun veitti TGS í september. Nýju sýnin gefa spennandi innsýn í olíujarðfræði Drekasvæðisins. Setbergi frá ýmsum tímum miðlífsaldar (fyrir 250 til 65 milljón árum síðan) var safnað. Meira en 200 kg af grjóti og seti náðust á tólf sýnatökustöðum.

Engin sýni eldri en 50 milljón ára höfðu verið tekin á svæðinu með borun eða öðrum aðferðum fyrir síðasta sumar og koma til viðbótar við niðurstöður úr rannsókn norsku Olíustofnunarinnar en önnur jarðlög fundust í þessari rannsókn. Ummerki um olíu úr móðurbergi frá Júratímabilinu (fyrir 200 til 150 milljón árum síðan) fundust sem staðfestir að það sé virkt kolvetniskerfi á Drekasvæðinu.

Þessar nýju upplýsingar komu fram seint á útboðstímanum en geta verið gagnlegar til lengri tíma litið. Niðurstöðurnar koma einnig að gagni við olíuleit á djúphafsbotni á evrópska og grænlenska landgrunninu.

Norska Olíustofnunin og Háskólinn í Bergen tóku einnig sýni á Drekasvæðinu síðasta sumar. Jarðfræðisýni voru tekin úr bröttum hlíðum á Jan Mayen hrygg. Greiningar á sýnunum bentu til þess að gömul setlög væri að finna á svæðinu en elsta sýnið var 260 milljón ára gamalt. Sýnunum var safnað með fjarstýrðum kafbáti á tímabilinu 3. til 19. júlí bæði innan lögsögu Noregs og Íslands. 

Útboðssvæðið nær yfir norðurhluta Drekasvæðisins sem er 42.700 ferkílómetrar að flatarmáli og staðsett norðaustur af Íslandi. Rannsóknir munu ná yfir fjölda ára, í kjölfar umfjöllunar um skilmála fyrir sérleyfi, enda eru slík sérleyfi veitt til allt að 12 ára. Innlendar tekjur á rannsóknartímabilinu takmarkast við þjónustu vegna slíkra rannsókna. Framleiðslugjald og skattlagning hagnaðar koma fyrst til eftir að vinnsla kolvetna er hafin en í kjölfar þess má vænta atvinnuuppbyggingar til frambúðar.