Fréttir


Stofnun ríkisolíufélags

23.3.2012

Orkustofnun fer með leyfisveitingavald samkvæmt lögum nr.13/2001 um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis (kolvetnislögunum). Í því útboðsferli sem nú stendur yfir vegna sérleyfa til rannsókna og vinnslu kolvetnis á norðurhluta Dreksvæðisins og lýkur þann 2. apríl nk. hafa skapast væntingar um olíuvinnslu á svæðinu og umræðan um ríkisolíufélag fengið byr undir vængi. Orkustofnun vill af því tilefni reifa stuttlega stofnun slíks félags út frá gildandi regluverki og áherslum stofnunarinnar í því sambandi.

Í kolvetnislögunum kemur fram í 8. gr. a, að ráðherra sé heimilt að ákveða um þátttöku íslenska ríkisins í vinnslu kolvetnis. Í fyrsta útboði sérleyfa til rannsókna og vinnslu kolvetnis, var mörkuð sú stefna að íslenska ríkið taki ekki þátt í vinnslu kolvetnis í leyfum sem þá stóð til að veita og sama á við í núverandi útboði, vegna sérleyfa á Drekasvæðinu, að ekki er um þátttöku íslenska ríkisins að ræða. Mikil áhætta og kostnaður myndi fylgja slíkri beinni þátttöku í útboðinu, en leyfishafar bera þann rannsóknarkostnað sem til fellur. Þess má geta að Norðmenn hófu ekki þátttöku í leyfum fyrr en eftir að olía var fundin í þeirra landgrunni og af þeirra reynslu drögum við bæði þekkingu og lærdóm. Stjórnvöld hafa náið og gott samstarf við norsk stjórnvöld um hvaðeina er að yfirstandandi útboði snýr, þ. á m. könnun á þeim möguleika að stofna ríkisolíufélag og hefur iðnaðarráðuneytið verið í sambandi við fjármálaráðuneytið um að kanna nánar þann möguleika, þó slíkt félag sé ekki á dagskrá í því útboðsferli sem stendur nú yfir.

Í kolvetnislögunum kemur fram að „ákveði ráðherra að íslenska ríkið taki þátt í vinnslu kolvetnis skal hann beita sér fyrir stofnun hlutafélags með það að markmiði að gæta hagsmuna íslenska ríkisins vegna þátttöku þess. Öll hlutabréf í hlutafélaginu skulu ávallt vera eign ríkissjóðs.

Tekið er fram í lögunum að ekki sé um vinnslufyrirtæki að ræða, heldur er hugsunin sú að gæta hagsmuna Íslands. Um það segir í greinargerð með frumvarpinu, þegar það kom fyrir Alþingi, að ekki sé lagt til að íslenska ríkið taki beint þátt í vinnslu á kolvetni heldur að gæta hagsmuna íslenska ríkisins er varða auðlindina sjálfa sem og fjárhagslega hagsmuni ríkisins af vinnslu kolvetnis.

Markmið lagaákvæðisins er að veita ráðherra heimild til koma á fót félagi sem kemur fram fyrir hönd íslenska ríkisins, og á ábyrgð og áhættu þess, til að fara með réttindi ríkisins og skyldur, komi til þátttöku þess í kolvetnisstarfsemi og viðskiptum þeim tengdum. Þetta fyrirkomulag er í sama anda og gerist í Noregi, þar sem komið var á fót sérstöku ríkisfyrirtæki Petoro AS, til að fara með hagsmunagæslu norska ríkisins. Ólíkt Statoil í Noregi tekur Petoro AS ekki beinan þátt í vinnslu kolvetnis heldur er einungis um fyrirtæki að ræða sem gætir ríkishagsmuna.

Í ljósi þess að kolvetnisstarfsemi er áhættusöm starfsemi, og þá sérstaklega fjárhagslega, þótti löggjafanum rétt að ráðherra sé heimilt að kveða á um þátttöku íslenska ríkisins í slíkri starfsemi og því er ekki um skyldu að ræða. Með slíku móti er það mat hverju sinni hvort hagsmuna íslenska ríkisins, eða auðlinda þess, sé gætt með eða án þátttöku ríkisins.

Það er áréttað í greinargerðinni að félaginu er ekki ætlað að starfa sem vinnslufyrirtæki og skal það ávallt vera að fullu í eigu íslenska ríkisins og allur vafi tekinn af því að félaginu er með öllu óheimilt að starfa sem vinnslufyrirtæki.

Félaginu er ætlað að starfa á afmörkuðu svæði samkvæmt lögunum þ.e. hinu íslenska landgrunni með þeirri undantekningu að félaginu sé heimilt að starfa utan þeirra marka á þeim svæðum þar sem íslenska ríkið á rétt til nýtingar á auðlindum samkvæmt alþjóðlegum samningum, tvíhliða eða fjölþjóðlegum, sem vísar t.d. til samningsins við Norðmenn frá 1981 um samnýtingarsvæðið á Jan Mayen-hryggnum, en sá hluti hryggjarins sem er innan íslenskri lögsögu er nyrst á Drekasvæðinu.

Öll hlutabréf félagsins verða að vera í eigu íslenska ríkisins við stofnun þess og lagt er til að ráðherra fari með eignarhlut ríkisins í félaginu. Samkvæmt 29. gr. laga nr. 88/1997, um fjárreiður ríkisins, skulu ríkisaðilar í A-hluta hverju sinni afla heimildar í lögum, m.a. til að selja eignarhluti í félögum. Af þessum sökum getur ekki komið til sölu á hlutum ríkisins í hlutafélaginu nema með sérstakri heimild Alþingis. Stjórn félagsins skal skipuð fimm mönnum og tilgangi félagsins lýst í samþykktum þess. Tilgangi félagsins má síðan breyta á hluthafafundi samkvæmt almennum reglum. Með því gefst nauðsynlegt svigrúm til að laga hlutverk félagsins að aðstæðum hverju sinni. Þá er kveðið á um það í lögunum að ákvæði hlutafélagalaga gilda um hlutafélagið ef lögin mæla ekki á annan veg.

Orkustofnun hefur hvatt til þess að undirbúningur verði hafinn að stofnun félagsins samkvæmt heimildarákvæði kolvetnislaganna og bent á að gagnlegt gæti verið að leita frekari upplýsinga frá Norðmönnum varðandi skipulag Petoro AS og þeir fallist á að vera okkur innan handar. Stofnunin telur reyndar að það bráðliggi ekki á að þetta verði gert meðan núverandi útboð á sér stað, en að æskilegt sé að áætlanir um stofnun félagsins verði fullmótaðar áður en norsk stjórnvöld opna sinn hluta Jan Mayen-hryggjarins fyrir rannsóknum og vinnslu kolvetnis. Einnig er mikilvægt að hafa í huga að ef rannsóknir á kolvetni á íslenska landgrunninu ganga vel, þá væri ástæða fyrir íslenska ríkið að vera tilbúið með félag sem gæti farið með hlut sem íslenska ríkið tekur í sérleyfum sem þá væru veitt, þar sem áhættan við þátttöku í sérleyfum í útboðum síðari tíma gæti hafa minnkað til muna þegar þar að kemur og þekking orðin orðin meiri á svæðinu.