Fréttir


Orkustofnun veitir Landsvirkjun rannsóknarleyfi á vatnasviði við Hágöngulón á Holtamannaafrétti

14.3.2012

Leyfið tekur til rannsókna við að kanna hagkvæmni þess að nýta fallorku úr Hágöngulóni á Holtamannafrétti til vatnsaflsvirkjunar.

Leyfið takmarkast við þær framkvæmdir sem kveðið er á um í rannsóknaráætlun og eru á sviði vatnafræði og jarðfræði auk rannsókna á lífríki og annarra rannsókna í tengslum við mat á umhverfisáhrifum. Leyfið felur ekki í sér heimild til nýtingar á vatnasviði rannsóknarsvæðisins

Leyfishafa ber að haga rannsóknum á leyfissvæðinu í samræmi við innsend gögn. Hann skal árlega gera Orkustofnun grein fyrir niðurstöðum rannsókna og gera jafnframt grein fyrir endurskoðun á áætlun um rannsóknir sínar á leyfissvæðinu, ef um veruleg frávik er að ræða frá upphaflegri áætlun eða rannsóknir auknar frá því sem gert var ráð fyrir í rannsóknaráætluninni.

Leyfið er háð almennum gildandi réttarreglum á hverjum tíma og undanþiggur ekki leyfishafa frá því að sækja um önnur leyfi vegna starfsemi sinnar sem að öðru leyti er mælt fyrir um í lögum svo sem um framkvæmdarleyfi skipulagsyfirvalda eða starfsleyfi heilbrigðisnefndar vegna jarðborana.

Komi til nýtingar þarf leyfishafi að sækja um sérstakt virkjunarleyfi og ná samkomulagi við umráðahafa vatnsréttinda á svæðinu um endurgjald fyrir auðlindina eða afla sér eignarnámsheimildar.

Við undirbúning að útgáfu leyfisins var leitað umsagnar umhverfisráðuneytis, sveitastjórnar Rangárþings ytra, hreppsnefndar Ásahrepps og forsætisráðuneytisins í samræmi við 4. mgr. 5. gr. laga, nr. 57/1998, 13. og 14. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, og 2. og 3. gr. laga, um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlenda og afrétt, nr. 58/1998.

Leyfið var útgefið þann 12. mars 2012 og gildir til 12. mars 2027.

Leyfið og fylgiskjöl