Fréttir


Raforkuhópur Orkuspárnefndar hefur tekið saman helstu tölur fyrir árið 2011

15.2.2012

Raforkuvinnsla jókst um 0,9% á milli ára og almenn notkun er farin að aukast eftir samdrátt síðustu ára. Í samantektinni má einnig sjá að aukin raforkunotkun helst í hendur við hagvöxt í landinu og síðustu raforkuspár hafa staðist vel.
frett_15022012

Árið 2011 nam raforkuvinnsla á landinu samtals 17.210 GWh og jókst um 0,9% frá fyrra ári. Stórnotkun nam 13.284 GWh á árinu 2011 og jókst um 0,6% frá fyrra ári. Almenn notkun jókst um 2,3% og nam 3.603 GWh en þessi notkun hafði minnkað árin 2009 og 2010 og ennþá er hún minni en árið 2008.  Töp við flutning orkunnar frá virkjunum til almenningsveitna og stórnotenda voru 323 GWh og minnkuðu um 1,9%. Veðurfar hefur nokkur áhrif á raforkunotkun aðallega vegna rafhitunar húsnæðis.  Til að fá eðlilegan samanburð milli ára hvað varðar þróun almennrar raforkunotkunar er hún oft leiðrétt út frá lofthita.  Síðasta ár var kaldara en árið á undan og aukning notkunar milli ára er því heldur minni eftir hitastigsleiðréttingu. Tölur leiðréttar út frá lofthita eru sýndar innan sviga þar sem slíkt á við. Notkun stóriðju hefur aukist mun minna síðustu þrjú ár en næstu ár þar á undan en hlutur stóriðju af heildamarkaðinum á landinu var 79% árið 2011. Raforkuvinnsla á landinu í hlutfalli við fólksfjölda var 53,9 MWh/íbúa en almenn notkun með dreifitöpum var 11,3 MWh/íbúa.

Á árunum 1989–94, þegar hagvöxtur var lítill hér á landi, var árleg aukning almennrar forgangsorku einungis um 1%. Þegar hagvöxtur jókst að nýju fór einnig raforkunotkun að aukast hraðar en áður en árin 1994 til 2008 var meðalaukning almennrar forgangsorku 3,2% en vöxtur landsframleiðslu á sama tímabili var um 4,1% á ári að meðaltali. Raforkunotkunin sveiflast að jafnaði með landsframleiðslunni en sveiflurnar eru þó minni í raforkunotkuninni, eins og sjá má á myndum 2 og 3 í skýrslunni.  Frá 2008 til 2011 hefur notkunin minnkað um 1%.

Síðustu raforkuspár Orkuspárnefndar hafa staðist vel. Þegar litið er á eldri spár og þær bornar saman við rauntölur síðustu ára sést að spá um almenna notkun frá 1985 var nánast sú sama og raunnotkunin eftir 27 ár, spá frá 1992 er um 12% undir raunnotkuninni eftir 20 ár, spáin frá 1997 er 2% undir  raunnotkuninni eftir 15 ár og spáin frá 2005 er tæpum 2% undir raunnotkuninni eftir 7 ár, sjá mynd 7 í samantekt. Í þessum tölum er miðað við bæði forgangs- og ótryggða orku til almennra nota að viðbættum flutningstöpum.

Samantekt raforkuhóps Orkuspárnefndar