Fréttir


Niðurdæling affalsvatns við Hellisheiðarvirkjun eykur ekki líkur á því að stærri jarðskjálftar geti myndast á svæðinu

16.10.2011

Niðurstaða Orkustofnunar eftir úttekt er að sérfræðingar á þessu sviði geta sagt með nokkru öryggi að niðurdæling auki ekki líkur á því að stærri jarðskjálftar en þeir sem verða án niðurdælingar geti myndast á svæðinu. Hins vegar gætu staðbundnar tilfærslur á spennum haft áhrif í þá átt að flýta stærri skjálftum sem eru í aðsigi.

Allar líkur eru til þess að smám saman dragi úr smáskjálftavirkni á svæðinu eftir því sem niðurdælingin stendur lengur. Þrýstingur hefur hækkað í mæliholum í nágrenninu og fer enn aðeins hækkandi. Hann mun ná jafnvægi með tímanum og smáskjálftavirknin sem tengist niðurdælingunni þá hætta að mestu. Spenna af völdum jarðskorpuhreyfinga mun þó halda áfram að byggjast upp og losna úr læðingi með jarðskjálftum af og til. Þeir jarðskjálftar munu hugsanlega verða fleiri og minni en hefði orðið án niðurdælingar. Með bættri vöktun á skjálftavirkni liggja nákvæmar upplýsingar um þessa smáskjálfta fyrir. Framsetning þessara upplýsinga þarf þó að vera með þeim hætti að almenningur sé upplýstur um takmörkuð áhrif slíkra skjálfta og hafi vitneskju um þá náttúrulegu skjálftavirkni sem alltaf er fyrir hendi á háhitasvæðum.

Þá ber að hafa í huga að þykkt jarðskorpunnar og styrkur bergsins á þessu svæði er það takmarkaður að mestu skjálftar geti ekki orðið meiri en um 6 á Richter kvarða.

Nánari upplýsingar í minnisblaði Orkustofnunar