Fréttir


Alþjóðlegur fundur IPHE á sviði vetnis haldinn á Íslandi dagana 23. og 24. september

26.9.2004

IPHE, International Partnership for the Hydrogen Economy, er samstarfsvettvangur 15 þjóða sem stofnað var til að frumkvæði Bandaríkjamanna í nóvember 2003.

Dagana 23. og 24. september verður haldinn í Reykjavík fundur framkvæmdanefndar IPHE. Iðnaðarráðherra, Valgerður Sverrisdóttir, mun ávarpa og setja fundinn í Þjóðmenningarhúsinu fimmtudaginn 23. september kl. 9:00. Búist er við að um 80 manns frá 20 þjóðlöndum sæki fundinn.

Á fundinum í Reykjavík verða tvö meginmál til umræðu:

 Í fyrsta lagi skipulag starfsins með áherslu á menntun og alþjóðatengsl á sviði vetnisþróunar. Í öðru lagi verður fjallað um vetnisverkefni víða um heim og þá þróun og árangur sem náðst hefur. Þar munu fulltrúar ýmissa landa og svæða s.s. Íslands, Bandaríkjanna, Kaliforníu, Evrópusambandsins, Japan, Kína og Kóreu fjalla um verkefni á sviði vetnisþróunar. Einnig verða kynnt sjónarmið samtaka bílaframleiðenda á fundinum, en miklum fjármunum er varið af þeirra hálfu til þróunar vetnisbifreiða sem ætlunin er að markaðssetja innan 10-15 ára. Slíkt mun krefjast nýrra aðstæðna, s.s. framboðs á vetni og tækniþjónustu.