Fréttir


Vitnað í úreltar mæliniðurstöður Orkustofnunar

12.8.2004

Um langt árabil hefur tíðkast að gögn og upplýsingar Vatnamælinga um vatnafar landsins séu endurskoðuð og yfirfarin eftir því sem mælingar verða ítarlegri og framfarir verða í mælitækni og aðferðum við túlkun á mæliniðurstöðum.

Á hverjum tíma hefur ávallt verið notast við bestu og nákvæmustu tiltækar upplýsingar, sem í einstaka tilvikum hafa við nánari skoðun ekki reynst nægjanlega áreiðanlegar. Eðli málsins samkvæmt geta ályktanir sem dregnar eru á grundvelli ófullkominna upplýsinga verið villandi eða jafnvel rangar. Því er nauðsynlegt að þeir, sem hyggjast nýta sér mæliniðurstöður Vatnamælinga Orkustofnunar, kynni sér nýjustu uppfærslu gagnanna í hvert skipti.

Í ljósi umræðunnar undanfarið skal hér tekið dæmi um vatnshæðarmæli sem reistur var í Jöklu við Brú á Jökuldal árið 1970. Endurmat gagna leiddi í ljós verulegt ósamræmi milli vatnshæðar- og rennslismælinga á þessum stað, einkum í miklu rennsli. Mælirinn var færður á nýjan stað árið 1986, þar sem rekstur hans hefur verið í viðunandi lagi síðan, en vatnshæðargögn frá gamla mælistaðnum nýtast einungis við mat á lágmarksrennsli Jöklu við Brú. Mælistöðin við Hjarðarhaga neðar í ánni, sem reist var árið 1963, hefur aftur á móti reynst gefa góða mynd af rennslisháttum Jöklu undanfarna fjóra áratugi.