Fréttir


Orkustofnun tekur þátt í ráðstefnu Alþjóða orkuráðsins

11.8.2004

Dagana 5.-9. september nk. heldur Alþjóða orkuráðið (World Energy Council, WEC) 19. alþjóðaráðstefnu sína í Sydney í Ástralíu.

Á ráðstefnunni verður lagt fram erindið "Sustainable generation and utilization of energy - The case of Iceland". Aðalhöfundur þess og flytjandi er Ágúst Valfells verkfræðingur á Orkustofnun. Í erindinu er m.a. lýst hvaða áhrif nýting endurnýjanlegra orkugjafa, vatnsafls og jarðvarma hefur haft í efnahagslegu tilliti á Íslandi síðustu öldina.

Á ráðstefnunni verður fjallað um orkumál á breiðum grundvelli og allar hugsanlegar gerðir orkugjafa. Einnig skipa umhverfismál og markaðsmál stóran sess í dagskránni. Flutt verða erindi um markaðsvæðingu í raforkuiðnaði en slík þróun er einmitt að verða hér á landi. Rétt er að benda á að heildarsala orkufyrirtækja hér á landi, þ.e. sala á innlendu orkugjöfunum raforku og heitu vatni, nemur u.þ.b. 25 milljörðum króna á ári. Þessu til viðbótar kemur sala á innfluttu eldsneyti, sem einnig er hluti af íslenskum orkuiðnaði.

Í Íslandsdeild WEC (ICE-WEC) eru um 25 félagar. Þar eru fulltrúar allra stærstu orkufyrirtækjanna og nokkurra stofnana og samtaka sem tengjast orkumálum. Formaður ICE-WEC er Þorkell Helgason, orkumálastjóri, en starfsmaður nefndarinnar er Árni Ragnarsson, verkfræðingur á Orkustofnun.

Netfang WEC: http://www.worldenergy.org
Vefsíða ráðstefnunnar: http://www.tourhosts.com.au/energy2004