Fréttir


Orkustofnun hefur umsjón með úttekt á smáskjálftavirkni

13.10.2011

Orkustofnun hefur að beiðni iðnaðarráðherra hafið úttekt á smáskjálftavirkni tengdri niðurdælingu á Hengilssvæðinu ásamt sérfræðingum frá Íslenskum Orkurannsóknum, Veðurstofu Íslands og Orkuveitu Reykjavíkur.

Í virkjunarleyfi Hellisheiðarvirkjunar er Orkuveitu Reykjavíkur gert skylt að skila afgangsvökvanum ofan í jörðina. Orkuveitan hefur að undanförnu fært niðurdælingu jarðhitavökva við Gráuhnjúka sunnan þjóðvegar yfir í niðurrennslisholur við Húsmúla, sem er norðan við virkjunina. Holurnar eru um 2 kílómetrar að dýpt og ná niður fyrir grunnvatnsstrauma. Þessi niðurdæling  hefur haft í för með sér smáskjálftavirkni á Hengilssvæðinu.

Þessi manngerða skjálftavirkni hefur eðlilega vakið spurningar hjá íbúum nærliggjandi byggða um það, hvort þetta geti haft aukna hættu í för með sér og hvort þetta ástand verði viðvarandi.

Unnið er að því að varpa ljósi á eðli skjálftanna og bera saman við skjálftavirkni áður en boranir á svæðinu hófust. Að auki er verið að meta hvaða áhrif smáskjálftarnir hafi á spennuástand í jarðlögum og hugsanlegar breytingar á skjálftavirkni til lengri tíma. Skjálftavirkni tengd borunum og niðurdælingu er til umfjöllunar í alþjóðlegu vísindasamstarfi sem íslenskir sérfræðingar taka þátt í.

Niðurstaða úttektarinnar mun liggja fyrir á næstu dögum.