Fréttir


Niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar

10.8.2004

Þann 15. júní sl tóku gildi breytingar á lögum nr. 78/2002 um niðurgreiðslu húshitunarkostnaðar sem gefur fleiri aðilum kost á því að fá niðurgreiðslu á húshitunarkostnaði.

Lög um niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar, nr. 78 8. maí 2002
Lög um breytingu á lögum nr. 78/2002, um niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar, nr. 58 28. maí 2004

Helstu breytingar eru eftirfarandi:

  1. Þurfi umsækjandi að halda fleiri en eitt heimili vegna starfa, eigin náms eða náms fjölskyldu er heimilt að greiða niður húshitunarkostnað óháð því hvar lögheimili er skráð.
  2. Heimilt er að greiða niður hluta kostnaðar við hitun húsnæðis sem er skráð sem íbúðarhúsnæði hjá Fasteignamati ríkisins þótt þar sé ekki föst búseta.
  3. Kostnaður við hitun kirkna, bænahúsa trúfélaga, safna, félagsheimila og húsnæðis björgunarsveita skal greiddur niður á sama hátt og hitun íbúða.
  4. Í stað orðanna „Eigandi íbúðar“ og „eiganda“ í 1. mgr. 5. gr. laganna kemur: Eigandi eða umráðamaður íbúðar, og: eiganda eða umráðamanni.

Þeir aðilar sem telja sig eiga rétt á niðurgreiðslum samkvæmt ofangreindum breytingum er bent á að sækja um sem fyrst. Hægt er að sækja um niðurgreiðslu með eftirtöldum leiðum:

  • Fylla út umsókn á netinu og senda rafrænt til Orkustofnunar.
  • Fylla út eyðublað á pappírsformi og senda í pósti til Orkustofnunar, Grensásvegi 9, 108 Reykjavík eða í fax 460 1381. Orkustofnun sendir eyðublaðið til þeirra sem þess óska.

Einnig er þeim sem fengu synjun á eldri umsókn en uppfylltu ofangreind skilyrði bent á að sækja um að nýju. Nánari upplýsingar eru í síma 569-6082 eða 460-1384. Einnig er hægt að senda tölvupóst á beg@os.is eða nidurgreidslur@os.is