Fréttir


Nýr deildarstjóri auðlindadeildar orkumálasviðs Orkustofnunar

23.7.2004

Hákon Aðalsteinsson stundaði nám í vatnalíffræði og tengdum greinum við Háskólann í Uppsölum og lauk þaðan kandidatsprófi 1971 og doktorsprófi 1979.

Hann hóf störf á Orkustofnun 1974 og starfaði lengst af sem deildarstjóri á sviði umhverfismála, en síðan breytingin varð á fyrirkomulagi Orkustofnunar 1997, sem verkefnis- og síðar yfirverkefnisstjóri. Þá hefur Hákon verið staðgengill deildarstjóra auðlindadeildar. Helstu verkefni hans hafa lotið að vatnafari og umhverfismálum orkumála. Undanfarin ár hefur hann haft daglega umsýslu með hinu umfangsmikla verkefni Rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma til raforkuvinnslu. Áður hafði hann verið aðalhöfundur að heildaryfirliti yfir orkukosti landsins sem iðnaðarráðuneytið gaf út árið 1994. Hákon hefur komið mjög að umsögnum Orkustofnunar til stjórnvalda um leyfisveitingar á sviði auðlindamála og virkjanakosta. Vísindastörf Hákons hafa einkum beinst að líffræði vatna og vatnakerfa og jökulvatna sérstaklega.

Orkumálasvið skiptist í tvær deildir, auðlindadeild og orkudeild. Auðlindadeild gerir tillögu til orkumálastjóra um þær orkurannsóknir sem kostaðar eru af ríkissjóði og um ráðstöfun á þeirri fjárveitingu sem Orkustofnun fær í samræmi við tilgreinda rannsóknaráætlun. Auðlindadeildin semur um framkvæmd rannsóknanna við orkurannsóknahluta Orkustofnunar eða aðra hæfa aðila.

Helstu viðfangsefni auðlindadeildar eru:

  • Að hafa heildarsýn yfir orkurannsóknir landsmanna.
  • Að standa fyrir rannsóknum á orkulindum landsins og varðveita grundvallarupplýsingar um þær.
  • Að starfrækja opinn tölvugagnagrunn með upplýsingum um orkumál og önnur auðlindamál.
  • Að miðla upplýsingum um orku- og auðlindamál til stjórnvalda og almennings.
  • Að hafa umsjón með auðlindasvæðum í eigu ríkisins.
  • Að vinna að áætlunargerð til langs tíma um rannsóknir og hagnýtingu orkulinda landsins í samvinnu við aðra sem stunda orkuvinnslu, orkuflutning og orkusölu.
  • Að leggja á ráð um orkusparnað og hagkvæma orkunotkun.
  • Að fylgjast með þróun orkumála á alþjóðavettvangi og taka þátt í alþjóðlegri samvinnu um orkurannsóknir.
  • Að vera ríkisstjórninni til ráðuneytis um orkumál og önnur auðlindamál.