Fréttir


Vatnshæð Kleifarvatns

22.7.2004

Síðastliðið ár hefur vatnshæð Kleifarvatns haldist nokkuð stöðug í kringum 137 m.y.s. en sveiflast með veðurfari að venju, hækkað við úrkomu og lækkað í þurrkatíð.

Líklega hafa sprungurnar sem opnuðust við Suðurlandsskjálftana í júní 2000 og ollu auknum leka úr vatninu þéttst á ný með leir og öðru seti svo Kleifarvatn er smám saman að ná jafnvægi við grunnvatnið í kring.

Fyrir Suðurlandsskjálftana í júní 2000 var vatnshæð Kleifarvatns um 140,5 m y.s. en fór lækkandi eftir skjálftana er sprungur opnuðust á botni vatnsins. Í lok júlí 2002 varð vatnshæðin það lægsta sem mælst hafði frá því mælingar með sírita hófust árið 1967 eða um 136 m y.s. Vatnsborð Kleifarvatns hafði þá lækkað um 4,5 metra frá því í júní 2000. Lækkunin varð hröðust fyrsta árið eða um 3 m frá 17. júní 2000 til 17. júní 2001.


Kristjana G. Eyþórsdóttir
jarðfræðingur