Fréttir


Vettvangur um vistvænt eldsneyti

25.6.2004

Kynning á vettvangi um vistvænt eldsneyti var haldin á Grand Hótel 29. júní 2004. Til vettvangsins var stofnað á ríkisstjórnarfundi þann 13. janúar síðastliðinn. Verkefnið er samstarfsverkefni Orkustofnunar og ráðuneyta. Sérstakur stýrihópur ráðuneytanna kemur að vettvanginum.

Þau ráðuneyti sem eiga fulltrúa í stýrihópnum eru: Iðnaðarráðneyti, umhverfisráðuneyti, samgönguráðuneyti, utanríkisráðuneyti, sjávarútvegsráðuneyti og fjármálaráðuneyti.

Ágúst Valfells, starfsmaður vettvangsins kynnti starfsemina.

Helstu hlutverk vettvangsins eru:

  • Ráðgjöf til stjórnvalda um vistvænt eldsneyti.
  • Samskipti við innlenda og erlenda aðila.
  • Kynning á möguleikum á vistvænu eldsneyti.

Til að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis á næstu árum þarf að haga gjöldum á bifreiðar og eldsneyti á þann hátt að almenningur sjái sér hag í að spara.  Hagur neytenda og þjóðhagsleg hagkvæmni þurfa að fara saman.

Vinna má nokkuð eldsneyti úr lífrænum úrgangi, en það má vera nokkru dýrara en annað eldsneyti í framleiðslu ef tekið er tillit til förgunarkostnaðar úrgangs.

Til lengri tíma litið er vert að kanna möguleika á því að nota innlendar orkulindir til að framleiða eldsneyti (orkubera) til samgangna.  Framvinda þeirra mála er þó mjög háð tækniþróun á alþjóðlegum vettvangi.  Haga verður skatta- og menntastefnu og efnahagslegu umhverfi þannig að við getum nýtt okkur nýja tækni í samgöngum þegar tækifæri gefst.

Þetta má gera með því að

  • Skilgreina breið hagkvæmnisskilyrði og vegvísi
  • Marka rannsókna- og menntastefnu
  • Marka “skattastefnu”

Í Alþjóðlegu samstarfi skipir m.a. máli að verðmat umhverfisþátta sé rétt

Greinilegt er að mikill áhugi er fyrir þessum málaflokki og var því slegið fram á fundinum að haldin yrði ráðstefna komandi haust þar sem saman myndu koma sem flestir sem að þessum málum starfa hérlendis, en markmið vettvangsins er meðal annars að hafa yfirsýn yfir þau verkefni sem í gangi eru og gætu orðið til þess að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis.

Nánari upplýsingar um vettvang um vistvænt eldsneyti veitir Ágúst Valfells á Orkustofnun, netfang: av@os.is, sími: 569 6000

Erindi Ágústs má nálgast hér