Fréttir


Gullmýrin í Vatnsmýrinni í Reykjavík

16.6.2004

Flestir Reykvíkingar kannast við Vatnsmýrina en fáir vita hvar sá blettur er í Vatnsmýrinni sem var kölluð Gullmýrin.
frett_16062004

Fyrir um það bil 100 árum var þéttbýlið í Reykjavík orðið það mikið að vatn úr fornum brunnum var oftar en ekki mengað af yfirborðsvatni og þar með hættulegt til neyslu fyrir bæjarbúa.

Áður en Bæjarstjórn Reykjavíkur lét leggja vatnsveituna úr Gvendarbrunnum fyrir ofan Reykjavík árið 1909 réðst hún í leita að köldu vatni í Vatnsmýrinni – sunnan megin við gamla Laufásveginn og norðan megin við Öskjuhlíðarendann. Gamli Hafnarfjarðarvegurinn til Hafnarfjarðar og Bessastaða, nú Skógarhlíð, kom svo í beinu framhaldi af Laufásveginum. – Margir knattspyrnuáhugamenn vita líka vissulega að Valur á lögheimili á Hlíðarenda, sem er auðvitað áðurnefndi Öskjuhlíðarendinn.

Vorið og sumarið 1905 boraði danskur verktaki með höggbor í Vatnsmýrinni í leit að köldu vatni með litlum árangri, en sumir töldu að örlað hefði á gullögnum í svarfinu.

Nokkurt umstang varð í Reykjavík í kjölfar þessa atburðar og þeir, sem mest trúðu á gullið, fengu aftur danskan verktaka til þess að bora með höggbor sumarið 1907. Ekki varð árangurinn eins og vonir stóðu til, nema sá að Gullmýrarnafnið á þessum hluta Vatnsmýrar náði festu meðal örnefna í Reykjavík.
Eins og gefur að skilja voru margir menn í Reykjavík samt sannfærðir um að gull væri í Gullmýrinni og stofnuðu félagið Málmleit hf. með þann tilgang einan að finna gullið með jarðborunum. Félagið keypti haglabor frá Erkelenz í Þýskalandi.

Þessi haglabor er fyrsti nútímajarðborinn á Íslandi. Haglaborinn er ekki bara merkilegur fyrir það, heldur líka hitt að hann er varðveittur ólíkt mörgum öðrum fyrstu eintökum af tækjum sem urðu brotajárn en ekki tækniminjar.

Tvær holur voru boraðar í Gullmýrinni sumarið 1922. Önnur holan náði um 50 metra dýpi.

Haglaborinn stóð lengi ónotaður á seinni holunni í Gullmýrinni eða allt til þess að Rafmagnsveita Reykjavíkur keypti hann loks af gjaldþrota félaginu og flutti inn í Þvottalaugar vorið 1928 og hóf jarðboranir eftir heitu vatni – sem er með réttu ígildi gulls fyrir Reykvíkinga. Eftir að Hitaveita Reykjavíkur tók til starfa var Haglaborinn í borflota Hitaveitunnar og í notkun allt fram í janúar 1965. Haglaborinn stóð í mörg á síðustu holunni í Gufunesi en fyrir atbeina Jóhannesar Zoëga hitaveitustjóra var hann loks gerður upp og gefinn á Árbæjarsafnið vorið 1978.

Undirritaður hefur leitað merkja um jarðboranir í Gullmýrinni en lengi með litlum árangri. Loks kom þar að á myndasýningu á Kjarvalsstöðum í ágúst 1986 í tilefni af 200 ára afmæli kaupstaðarréttinda Reykjavíkur sá ég mynd frá því þegar Alexandrine Danadrottning lagði hornstein að Landspítalanum sumarið 1926 en á myndinni mátti auk hinna tignu gesta sjá Haglaborinn í Gullmýrinni. Stuttu síðar fann Kristján Sæmundsson jarðfræðingur jarðlagasnið yfir seinni holuna frá 1922 og gaf mér afrit af. Í ferðalagi sagnfræðinga til Grænlands vorið 1996 frétti ég hjá Helga Mána Sigurðssyni sagnfræðingi á Árbæjarsafninu að til væri kort hjá Borgarverkfræðingnum í Reykjavík, sem sýndi staðsetningu gullleitarholunnar í Gullmýri.

Auðvitað náði ég mér í kortið þegar heim kom. Mikið rétt – holan er greinilega merkt á kortið og einnig með hnitum. Bolli Skúlason Thoroddsen (1901-1974), sem var lengi bæjarverkfræðingur í Reykjavík hafði þá landmælt staðsetningu holunnar líklega sumarið 1933. Nú í vor, þegar ljóst var að flutningur Hringbrautar til suðurs ofan í Gullmýri og Vatnsmýri var kominn á dagskrá, fórum við Kristján Sæmundsson og Hilmar Sigvaldason eðlisfræðingur á staðinn með GPS-tæki. Áður hafði Hilmar sett áðurnefnd hnit í GPS-tækið og það leiddi okkur á staðinn.

Undirritaður var svo viðstaddur á Annan í Hvítasunnu þegar grafa frá Háfelli hf. hreinsaði ofan af klöppinni. Í framtíðinni verða undirgöng undir Hringbrautina í Gullmýrinni.

Þorgils Jónasson