Fréttir


Upplýsingar úr borholuskrá komnar á vefsíðu Orkustofnunar

25.8.2011

Orkustofnun hefur opnað leitaraðgang á netinu að nokkrum völdum efnisþáttum,  sem teknir hafa verið úr borholuskrá stofnunarinnar.

Upplýsingar um borholur hafa verið skráðar í Oracle gagnagrunn Orkustofnunar frá 1989. Hver hola fær í upphafi sérstakt staðarnúmer og eru allar upplýsingar um holuna, rannsóknir eða framkvæmdir tengdar því númeri. Þannig má halda utan um og nálgast upplýsingar með skilvirkum hætti. Í byrjun júlí 2011 voru skráðar í borholuskrá OS upplýsingar um alls 12735 borholur á Íslandi. Elsta skráða borholan í borholuskránni er frá leitinni að köldu vatni í Vatnsmýrinni veturinn 1904 til 1905.

Til þess að geta birt upplýsingar um borholur í vefsjám þurfa staðsetningarhnit þeirra að vera þekkt. Upplýsingar úr borholuskrá hafa til þessa ekki verið birtar í skrám á netinu, en valdar upplýsingar um helming holanna í skránni hefur mátt finna í Gagnavefsjá. Unnið er að því að safna hnitum af þeim borstöðum þar sem engin hnit hafa verið  færð inn og jafnframt er verið að vinna að því fá ný hnit, þar sem eldri staðsetningarhnit sem borist hafa frá ýmsum aðilum í skrána, hafa ekki reynst nægilega nákvæm. Tilgangur birtingar útdráttar úr borholuskránni á vefsíðu OS nú er meðal annars að auka aðgengi að upplýsingum, auðvelda öflun nánari gagna, en markmiðið er að fylla betur í eyður, uppfæra eldra efni og fjölga síðan efnisþáttum til birtingar bæði á vefsíðu OS og í Orkuvefsjá. Á vefsíðu stofnunarinnar er nú mögulegt að leita eftir sjö mismunandi þáttum, þ.e. staðarnúmeri, staðarnafni, svæðisnafni, borári, núverandi sveitarfélagi, eldri hrepp og tilgangi og fá síðan fram leitarniðurstöður þar sem jafnframt birtast upplýsingar um dýpi hverrar holu.

Leit í borholuskrá