Fréttir


Tillaga til þingsályktunar um vernd og nýtingu náttúrusvæða í opið 12 vikna umsagnar- og samráðsferli

19.8.2011

Niðurröðun virkjunarhugmynda í verndarflokk, biðflokk og nýtingarflokk, samkvæmt lögum um rammaáætlun, liggur nú fyrir og byggir hún á viðamiklu starfi verkefnisstjórnar og faghópa Rammaáætlunar. Samhliða því hafa verið gerð drög að þingsályktunartillögu sem felur í sér fyrrgreinda flokkun og fer hún nú í opið 12 vikna umsagnar- og samráðsferli meðal þjóðarinnar.

Í þingsályktunartillögunni er tekin afstaða til 69 virkjanahugmynda og af þeim fara 20 í verndarflokk, 22 í nýtingarflokk og 27 í biðflokk, en í síðastnefnda flokknum eru eingöngu þær hugmyndir sem þörf er talin á að rannsaka frekar til að meta hvort svæðið skuli fara í verndar- eða nýtingarflokk.

Kynning á þingsályktunartillögunni markar upphafið að 12 vikna samráðs- og kynningarferli þar sem almenningi og hagsmunaaðilum gefst kostur á að koma með athugasemdir og skila inn umsögnum um flokkunina í heild sinni, ákveðin svæði eða stakar virkjunarhugmyndir.

Í samráðs- og kynningarferlinu er jafnframt kallað eftir umsögnum vegna umhverfismats áætlana.

Til að auðvelda umsagnarferlið og tryggja gegnsæi þess hefur verið opnað vefsvæði hér á heimasvæði rammaáætlunar þar sem tekið er við umsögnum. Umsagnirnar verða birtar jafnóðum á sama vef þar sem þær verða aðgengilegar öllum. Frestur til að skila inn umsögnum rennur út á miðnætti föstudaginn 11. nóvember.

Að loknu kynningarferlinu munu iðnaðarráðherra og umhverfisráðherra ganga frá endanlegri tillögu til þingsályktunar um vernd og orkunýtingu landsvæða og leggja fram á Alþingi

Nánari upplýsingar um samráðs- og kynningarferlið er að finna á heimasíðu rammaáætlunar.