Fréttir


Orkustofnun veitir leyfi til töku steypuefnis af hafsbotni í Álftafirði í Ísafjarðardjúpi

16.8.2011

Orkustofnun veitti Kubbi ehf. á Ísafirði leyfi til efnistöku af hafsbotni norðan við Hattareyri í Álftafirði í Ísafjarðardjúpi þann 16. júní 2011. Leyft er að taka allt að 15.000 rúmmetra af steypuefni á afmörkuðu efnistökusvæði norðan Hattareyrar í Álftafirði. Leyfið gildir frá 16. júní 2011 til 1. júlí 2014.

Við undirbúning að útgáfu leyfisins var leitað umsagnar Umhverfisstofnunar, sem lögboðins umsagnaraðila, auk Fiskistofu, Fornleifaverndar ríkisins, Hafrannsóknastofnunarinnar, Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða, Ísafjarðarbæjar, Náttúrustofu Vestfjarða, Siglingastofnunar Íslands og Súðavíkurhrepps.

Orkustofnun fellst að stærstum hluta á umbeðna efnistöku norðan við Hattareyri í Álftafirði. Orkustofnun telur syðsta hluta umbeðins efnistökusvæðis of nálægt strönd, eða um 110-120 m frá strönd, þar sem efnistökusvæðið er næst henni. Því er einhver hluti umbeðins efnistökusvæðis að öllum líkindum innan netlaga. Syðsti hluti umbeðins efnistökusvæðis er einnig á of litlu dýpi, því til að draga úr líkum á strandrofi verður efnistaka ekki leyfð grynnra en á 6 m dýpi. Á þessu minnsta leyfða dýpi verður ekki leyft að sækja efni lengra en 2 m ofan í hafsbotn. Orkustofnun veitir Kubbi ehf. leyfi fyrir sama efnistökusvæði og stofnunin veitti Áseli ehf. leyfi fyrir árið 2009. Með því móti er ekki verið að fara inn á óröskuð svæði, þar sem gætu leynst viðkvæm og/eða sjaldgæf búsvæði, sem ekki hafa verið rannsökuð. Þar sem efnistökusvæðinu hefur nú þegar verið raskað, ætti ekki að vera hætta á að fornleifar laskist. Efnistakan við Hattareyri virðist hafa verið á svipuðum slóðum frá því hún hófst fyrir 1980, en innri mörk hennar virðast þó hafa verið færð aðeins utar árið 2009. Frá árinu 1997 hefur verið dælt upp a.m.k. 60.000 m3 af malarefni norðan við Hattareyri í Álftafirði. Að mati Orkustofnunar eru upplýsingar um malarefnið af skornum skammti. Engar upplýsingar liggja fyrir um útbreiðslu og þykkt efnisins. Berg- og kornastærðargreiningar á tveimur sýnum benda til þess, að malarefnið sé ágætt sem fylliefni í steypu, enda var það notað sem slíkt í Bolungarvíkurgöngin árið 2009.

Orkustofnun hefur eftirlit með framkvæmd efnistökunnar og skal Kubbur ehf. tilkynna skriflega til stofnunarinnar um upphaf og lok hverrar efnistökulotu. Kubbur ehf. skal mánaðarlega, þá mánuði sem efnistaka fer fram, senda Orkustofnun upplýsingar um það magn efnis sem tekið hefur verið. Samkvæmt upplýsingum sem borist hafa frá Kubbi ehf., þá fór uppdæling í fyrstu lotu efnistökunnar fram í byrjun júlí.

Leyfi til efnistöku
Fylgibréf með leyfi
Umsagnir og önnur fylgiskjöl (1 2 3)