Mikill áhugi á ráðstefnu um smávirkjanir sem Orkustofnun hélt 17. október 2019
Orkustofnun hélt fjölmenna ráðstefnu um smávirkjanir á Grand Hótel 17. október. Á ráðstefnuna mættu um 270 manns og því til viðbótar fylgdust 220 með streymi frá fundinum og samtals fylgdust því tæplega 500 manns með fundinum.
Fyrstu gestir voru mættir upp úr klukkan hálf átta og þegar ráðstefnan átti að hefjast um hálf níu var búið að bæta við lausum stólum fyrir ráðstefnugesti. Salurinn var þétt setinn og sátu eða stóðu sumir ráðstefnugestir frammi í anddyri, svo mikil var aðsóknin.
Orkumálastjóri Guðni A. Jóhannesson, setti ráðstefnuna og síðan flutti Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ráðherra ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunar ávarp.
Ráðherra fagnaði frumkvæði Orkustofnunar um málefni smávirkjana og benti á margvísleg tækifæri í skynsamlegri nýtingu og uppbyggingu þeirra á Íslandi. Hún nefndi einnig að staðbundnar lausnir í orkumálum séu atriði sem stjórnvöld hafa verið að horfa til á undanförnum árum, m.a. til að auka öryggi og framboð af orku innan raforkukerfisins.
Dagskrá ráðstefnunnar var mjög fjölbreytt og var fjallað um margvíslega þætti sem snerta smávirkjanir eins og öryggisstjórnkerfi, umhverfismat, áhrif smávirkjana á dreifikerfi og flutningskerfi raforku og fjármögnun virkjana.
Rein Husebø, frá Noregi flutti erindi um uppbyggingu smávirkjana í Noregi, en hann er ráðgjafi á sviði smávirkjana þar og hefur langa reynslu á því sviði.
Ýmsir aðilar fluttu erindi á ráðstefnunni, og í lokin sagði Arnar Bergþórsson, stjórnarformaður Arnarlækjar frá mjög áhugaverðri virkjanasögu Húsafells, en langafi hans byggði þar fyrstu virkjunina af fjórum og síðan tók hver kynslóðin við af annarri og byggði virkjun.
Fundarstjóri var Erla Björk Þorgeirsdóttir, verkefnisstjóri stjórnsýslu vatnsaflsvirkjana og vindorku.
Hægt er að sjá upptökur af hverju erindi fyrir sig og annað efni frá ráðstefnunni hér. Athugið að glærur fyrirlesara, frá öllum nema einum, og upptökur af erindum eru hvort í sínu lagi.