Fréttir


Kortlagning smávirkjanakosta á Vestfjörðum

8.6.2020

Út er komin önnur skýrsla Verkfræðistofunnar Vatnaskila um kortlagningu vænlegra smávirkjanakosta á Íslandi. 

Að þessu sinni eru það álitlegir staðir á Vestfjörðum með afl á bilinu 100 kWe -10 MWe. Smávirkjanakostir í Ísafjarðarbæ og friðlandinu á Hornströndum voru hins vegar ekki teknir til skoðunar auk þess sem vatnasvið virkjana eða virkjanakosta sem þegar eru í vinnslu eru undanskilin. Í skýrslunni er almennt ekki horft til fyrirliggjandi hugmynda um virkjanakosti heldur nýtt landfræðileg og veðurfræðileg gögn og reikniaðferðum beitt á þau til að ákvarða mögulega orkugetu vatnsfalla. 

Aðferðafræðin sem hér er gerð grein fyrir er í meginatriðum tvíþætt. Fyrra skrefið felur í sér að nota úrkomu- og uppgufunarkort ásamt landhæðarlíkani í hárri upplausn til að finna hugsanlega inntakspunkta fyrir virkjanir. Síðara skrefið snýr að því að kanna rennslisleiðir niður eftir farvegum frá mögulegum inntakspunktum og meta hvort aðstæður þar séu ákjósanlegar fyrir virkjun, þ.e. hvort fall er nægilega mikið innan hóflegrar vegalengdar frá inntakspunkti. Staðir sem þannig eru metnir fýsilegir eru teknir til nánari skoðunar. Miðlunarmöguleikar við inntak ákjósanlegra staða eru einnig metnir.

Helstu niðurstöður eru að kortlagðir hafa verið 401 virkjanakostur í sveitarfélögum á Vestfjörðum með heildarafl 447 MWe. Hafa ber í huga að tölum um orkugetu þarf að taka með fyrirvara, um algjöra frumathugun er að ræða sem hefur það að leiðarljósi að draga fram sem flesta kosti sem vert væri að kanna nánar. 

Kortlagningin byggist á þeirri aðferð að stuðst er við hæðarlíkan og veðurfræðileg gögn ásamt einföldum forsendum um þvermál fallpípu og falltöp en ekki er rýnt sérstaklega í staðhætti eða beinar rennslismælingar nýttar til samanburðar. Því er ljóst að mat á orkugetu getur í einhverjum tilvikum verið ónákvæmt. Einnig er möguleiki á að einhverjir áhugaverðir kostir komi ekki fram. Að lokum er mögulegt að vatnaskil geti verið rangt ákvörðuð vegna ónákvæmni í hæðarlíkani og villur hljótist af því en mest hætta er á að þetta gerist þar sem land er flatt. Frekari athugun á fýsileika kosta þyrfti að byggjast á rennslismælingum, staðháttum m.t.t. virkjunarstæðis og miðlunarmöguleika, sem og arðsemisútreikningi viðkomandi virkjunar

Sjá skýrsluna í heild:  Vestfirðir. Kortlagning smávirkjanakosta

Ef einhverjar spurningar vakna varðandi skýrsluna hafið samband með tölvupósti á os@os.is