Fréttir


Jólaerindi orkumálastjóra 2020

17.12.2020

Ágætu starfsmenn Orkustofnunar sem og aðrir sem á þetta kunna að hlýða.

Mér var tjáð þegar leið að fyrstu jólum eftir að ég kom til starfa á Orkustofnun 2008 að það væri löng hefð fyrir því að orkumálastjóri héldi jólaerindi fyrir starfsmenn. Ég var með böggum hildar yfir þessu óvænta verkefni því ég var þá nýlega sloppinn út úr erfiðum málum í Svíþjóð þar sem ég hafði sent snilldarþýðingu Ylvu Hellerud á Grýlukvæði Jóhannesar úr Kötlum sem jólakveðju til vina og samstarfsmanna. Saklausir viðtakendur höfðu ekki gætt að sér og byrjað að lesa kvæðið fyrir börnin sín fyrir svefninn eða það sem verra var skilið það eftir á glámbekk þar sem börn sem voru orðin læs komust í það eftirlitslaust. Það var því frá upphafi einlægur ásetningur minn að velja mér umfjöllunarefni sem bæru vitni um mikla aðgát í nærveru viðkvæmra sálna og flytja mál mitt af hófsemi og stillingu. Þegar ég lít yfir erindi liðinna ára sé ég að mér hefur að mestu tekist þetta en reynslan hefur kennt mér að það er erfitt að sjá fyrir hversu viðkvæmir viðtakendur eru. Sérstaklega virðast menn firrast við ef hróflað er við einföldum sannleika eða hugmyndakerfum sem þeir hafa lengi hlúð að óáreittir í skjóli skorts á gagnrýninni umræðu.

Faraldur
Nú þegar við siglum upp aðventuna inn í jólahaldið leggjum við að baki ár og atburði sem margir hafa sagt að séu fordæmalausir, sumir reyndar að þeir séu fordómalausir og svo einstaka Vestfirðingur sem segir að þeir þekki þessa engin eftirdæmi. Þetta er reyndar athyglisvert þar sem faraldrar hafa fylgt mannkyninu að því er virðist frá forsögulegum tíma og oftast verið fátt til bjargar annað en að láta náttúruna hafa sinn gang. Stundum tókst að byggja upp ónæmi en í öðrum tilfellum hafa sjúkdómarnir haldið áfram að herja á mannkynið öldum saman og eru enn mikilvirkir í löndum þar sem fólk býr við sára fátækt og aðstöðuleysi. Sem betur fer hafa á sviði læknisfræðinnar unnist stórir sigrar, stundum fyrir tilviljun eins og skort á hreinlæti í rannsóknarstofu dr. Flemings sem færð okkur pensillínið, með tilraunum á saklausu fólki en auðvitað líka markvissu vísindastarfi sem færði okkur lyf gegn berklum og seinna krabbameini og bóluefni gegn lömunarveiki og mislingum. Við sem lifum í hinum velmegandi hluta heimsins þar sem fátt skortir erum einfaldlega vön því að heilbrigðiskerfið eigi úrræði til þess að vernda okkur gegn flestum sjúkdómum og veita öfluga meðferð til þess að koma okkur aftur á beinu brautina ef við verðum fyrir erfiðum sjúkdómum eða slysum. Hér kemur svo veira sem laumast aftan að okkur með heilbrigðu, hraustlegu og sólbrúnu skíðafólki sem kemur úr hreina fjallaloftinu í Ölpunum og dreifir sér síðan um samfélagið þar sem fólk hittist til þess að njóta samvista eins og á knattspyrnuleikjum, krám, á söngæfingum og í líkamsrækt og jafnvel í bænastundum. Með liðsstyrk bestu sérfræðinga og og auðvitað fyrirtækisins DECODE sem lagði mikið af mörkum tókst að halda veirunni í skefjum með þrotlausu prófunar- og greiningarstarfi og þegar álagið var sem mest reyndist heilbrigðiskerfið og starfsfólk þess megnugt til þess að veita nauðsynlega aðhlynningu og þróa nýjar og betri meðferðir þannig að dánartalan fór ekki úr böndum.

Sænska leiðin
Við hjónin bjuggum samtals aldarfjórðung í Svíþjóð. Í byrjun áttunda áratugarins þegar við fórum að skoða okkur um í nýja hverfinu okkar í í Lundi mætti okkur sveit ungbarna á þríhjólum með gerðarlega hjálma og eins og þau væru á leið í stríð. Umferðaröryggi var fyrir öllu, skylda að vera með öryggisbelti, jafnvel í aftursæti bifreiða og vinur minn Gísli Gunnarsson síðar prófessor í hagsögu fékk feita sekt á götuhorni þar sem var stöðvunarskylda. Hann hafði vissulega stöðvað hjólið en hélt jafnvæginu af mikilli list i stað þess að setja niður fótinn eins og lög gera ráð fyrir og það varð honum að falli í sænska réttarkerfinu. Opinber stofnun lagði hart að þegnunum að borða minnst sjö brauðsneiðar á dag til þess að vernda líf og heilsu en sænska brauðið var á þeim tima því miður dísætt þannig að þetta reyndist okkur afar erfitt sem betur fer, í ljósi seinni tíma upplýsinga frá sömu stofnun.

Það kom okkur því verulega á óvart að fylgjast með í sænskum miðlum hvernig sænskir sérfræðingar og ráðamenn stóðu og ypptu öxlum yfir faraldrinum löngu eftir að gripið hafði verið til róttækra aðgerða á Íslandi og manni skildist helst að þeirra afstaða væri að náttúran yrði bara að fá að hafa sinn gang. Nú þegar meira en sjö þúsund manns liggja í valnum og úrval bóluefna verðist vera á næsta leiti er erfitt að sjá hvernig hægt er að verja þá leið sem valin var. Þetta getur verið okkur áminning um að standa vörð um þann árangur sem náðst hefur hér á landi. Það væri óskemmtileg niðurstaða að, eftir að hafa neitað sér um flest mannleg samskipti í heilt ár, ná að smitast af Covid flensunni þegar það er kortér í bólusetningu.

Vistaskipti Jarðhitaskólans
Jarðhitaskólinn missti ásamt hinum skólunum tenginguna við háskóla Sameinuðu þjóðanna um síðustu áramót en tengist nú UNESCO sem sýnist vera síst verri kostur. Reyndar hef ég á næstum hálfrar aldar náms- og starfsævi aldrei heyrt minnst á Háskóla Sameinuðu þjóðanna nema í tengslum við skólana hér á Íslandi sem voru reknir undir þeirra merki. Hvort Háskóli Sameinuðu þjóðanna hefur afrekað eitthvað annað er mér því miður ekki kunnugt um. Um leið var fyrirkomulagi skólanna breytt þannig að þeir eru nú reknir undir sérstakri stofnun á vegum utanríkisráðuneytis, GRÓ, en voru áður reknir samkvæmt sérstökum samningi milli ráðuneytisins og viðkomandi hýsistofnunar. Um mitt ár lagði síðan framkvæmdastjóri GRÓ fram nýjan samning milli GRÓ og Orkustofnunar sem í framhaldinu átti að annast umsýslu skólans og standa straum af húsaleigu hans fyrir fasta upphæð, sem reyndar var talsvert undir þeirri upphæð sem Fasteignir ríkisins vilja fá í sinn hlut fyrir það húsnæði sem skólinn hefur nú til afnota. Orkustofnun taldi sig að sjálfsögðu ekki hafa neina ástæðu eða heimild til þess að niðurgreiða starfsemina og taka yfir þá rekstraráhættu sem henni kynni að fylgja. Sú umræða sem við áttum við stjórnarformann og framkvæmdastjóra GRÓ er sú einkennilegasta og minnst uppbyggjandi af öllu því sem ég hef kynnst á mínum starfsferli.

Niðurstaða þessa uppbyggilega samtals er að nú mun Jarðhitaskólinn verða færður undir ÍSOR. Þar á bæ eru menn greinilega tilbúnir að gangast undir skilmála GRÓ og þá ættu allir að geta orðið sáttir. Ég tel þetta hins vegar vera óhappaverk. Það fær mig enginn til þess að trúa því að ætlun utanríkisráðherra hafi hafi verið að skólarnir lifðu sníkjulífi á hýsistofnunum sínum. Staða Orkustofnunar sem stjórnsýslustofnunar hefur verið forsenda þess að samningar hafa náðst við alþjóðlegar stofnanir um fjármögnun námskeiðahalds. ÍSOR er nánast eins og einkafyrirtæki sem kaupir þjónustu af sjálfu sér á útseldum taxta. Það skapar að vísu augljós tækifæri til þess að ná aftur því tapi sem stofnunin verður fyrir vegna óhagstæðs rekstrarsamnings en skapar um leið tortryggni og hættu á mismunun gagnvart öðrum hlutum jarðhitasamfélagsins. Það sem meira er um vert er að þar með verður yfirstjórn skólans komin undir umhverfisráðuneyti sem um árabil hefur verið vakið og sofið í því að girða fyrir nýtingu vistvænnar orku til atvinnuuppbyggingar á Íslandi. Það verður hugsanlega ekki beinlínis trúverðugt þegar nemendum frá þróunarlöndum verður kennt að um þeirra umhverfi og náttúruvætti gildi allt önnur viðhorf en á Íslandi eða ef beinlínis verður farið að kenna hvernig tefja megi fyrir nauðsynlegri uppbyggingu innviða og atvinnulífs með öllum þekktum ráðum.

Við megum hins vegar ekki gleyma því að Jarðhitaskólinn er sterkasta vörumerki Íslands á sviði orkumála sem hefur náðst með næstum hálfrar aldar farsælu samstarfi utanríkisráðuneytis og Orkustofnunar. Þótt einstökum ráðamönnum á hverjum tíma séu mislagðar hendur munum við áfram styðja skólann og starfsfólk hans í sínu góða starfi og standa með þeim í að viðhalda þeim gæðum og háa þjónustustigi við nemendur sem hafa verið undirstaðan að velgengni hans.

Út fyrir Rammann
Þegar ég hóf störf á Orkustofnun í byrjun árs 2008 var að hefjast vinna við annan áfanga Rammaáætlunar. Í verkefnisstjórn voru þá fulltrúar stofnana, samtaka og ráðuneyta þannig að um aðferðir og niðurstöður skapaðist breið umræða þar sem mismunandi sjónarmið tókust á. Þótt ýmis upphlaup yrðu vegna óskyldra hluta sem trufluðu starfsemina var formaðurinn, Svanfríður Jónasdóttir, óþreytandi að taka umræðuna og umfjöllunin komst á það stig að það var hægt að ná niðurstöðu með meirihlutasamþykkt á alþingi. Jafnframt hafði verið unnið að því að treysta grundvöll rammaáætlunar með þvi að setja um hana lög, en því miður fólu þau lög í sér að framkvæmd laganna var falin umhverfisráðuneyti í stað iðnaðarráðuneytis eins og áður var. 

Í þriðju umferð var verkefnisstjórnin fámennari og einsleitari. Sama gilti um faghópana og það starf sem þar var unnið. Starfið beindist að því að safna í excelskjöl smáum og stórum ávirðingum á mögulega virkjunarkosti með einkunna- og stigagjöf sem var illskiljanleg fyrir þá sem stóðu utan við starfið. Röðun og flokkun virkjanakosta gekk að mínu mati þvert á almenna skynsemi og mikilvægar forsendur voru oftar en ekki gripnar úr lausu lofti eins og t.d. fyrir Skatastaðavirkjun. Enda varð snemma ljóst að engin samstaða var á Alþingi um afgreiðslu þessa áfanga og nú er vinna við fjórða áfanga rammaáætlunar hafin án þess að afgreiðslu þriðja áfanga sé lokið. Ég held við verðum að gera okkur ljóst að allt þetta ferli er orðið langur, erfiður draumur eða martröð. Það er kominn tími til þess að vakna upp frá þessu og finna nýjar leiðir. Einföld leið er að leggja niður rammaáætlun og efla þær stofnanir sem fara með umhverfis og skipulagsmál til þess að meta hugsanlega virkjunarkosti á skipulagsstigi. Ef þessar stofnanir telja að veruleg verðmæti séu í hættu og að sameiginlegir samfélagslegir hagsmunir geti verið meiri en svo að hugsanlegar framkvæmdir geti verið á ábyrgð viðkomandi sveitarfélaga eingöngu þá geti þær frestað málinu og gert tillögu til Alþingis um misjafnlega langt móratóríum eða stöðvun undirbúnings og framkvæmda. Slík stöðvun gæti staðið í 5, 10 eða 20 ár eftir því hve álitaefnin vega þungt eða hvort þau krefjast dýpri athugana og þekkingar. Alþingi verði síðan að afgreiða þessar tillögur innan ákveðins frests, til þess að ákvörðunin öðlist gildi. Friðlýsing án tímamarka er í raun alvarleg skerðing á rétti komandi kynslóða til þess að taka lýðræðislegar ákvarðanir um sín mál á hverjum tíma.

Hálendisþjóðgarður og loftslagsmál
Frumvarp um hálendisþjóðgarð hefur nún verið lagt fram á Alþingi. Umræðan um þessi mál hefur þroskast mikið og henni er ekki lengur handstýrt af fámennum, einsleitum hópi. Ég sakna þó áhrifanna á loftslagsmálin í þeirri umfjöllun sem á sér stað. Menn hafa vissulega sett spurningarmerki við að byggja atvinnulíf okkar og hagvöxt í enn meira mæli á fjöldatúrisma með tilheyrandi kolefnislosun, en svo eru menn enn gagnrýnislaust að tala niður jákvæð áhrif af því að nýta vistvæna orku hér á á landi til iðnaðarframleiðslu. Með illa dulinni þórðargleði lýsa menn væntingum sínum um að álver á Íslandi gætu þurft að loka sem þá myndi tryggja okkur nægilegt rafmagn til komandi orkuskipta án þess að byggja fleiri virkjanir. Hin hliðin á peningnum er nefnilega að ef það þarf að loka álveri hér þá er það vegna þess að það hefur orðið undir í samkeppni við álver rekið á kolaorku annars staðar á jarðarkringlunni. Allur okkar ávinningur af orkuskiptum sem drifin væru áfram af orku sem væri þannig fengin myndi glatast fimm sinnum í þeim skiptum.

Ágætu starfsmenn Orkustofnunar
Á jólaföstunni 2008 sungu Baggalútsmenn svo eftirminnilega braginn sinn; „Það koma vonandi jól“ og það er eins og þetta jólalag hafi fengið alveg nýja svörun á þessu ári. Munurinn nú er þó að það sem mönnum var efst í huga þá var versnandi efnahagur og hvort við myndum hafa efni á að kaupa amerískt skraut á jólatréð, en nú eru það mannleg samskipti jafnvel við okkar nánustu sem við söknum mest. Nú heitir jólalag Baggalúts, „Það koma samt jól“ þar sem samskiptunum er best lýst í laglinunni, „Jólasveinar ganga um gólf, með grímu og hver með sitt smithólf.“ Við höfum náð fullkomnun í að halda verkfundi og klára stjórsýsluverkefni á vefnum en þó samskipti við okkar nánustu á netinu svali löngun okkar til að sjást og tala saman þá fyllumst við um leið sorg yfir þeim takmörkunum sem þessi samskipti eru háð. Hver hefði trúað því að besta jólagjöfin í ár yrði flensusprauta. Ný bóluefni sem gefa okkur von um að geta snúið aftur til venjulegs lífs, kysst gamlar frænkur, faðmað barnabörnin og sungið saman hvert með sínu nefi. 

Ég vona að þið getið þrátt fyrir aðstæður búið ykkur notalega jóla og nýárshátíð með ykkar nánustu og nýtt tæknina til samskipta við ættingja og vini sem þið þurfið að halda í hæfilegri fjarlægð. Hugsanlega finnum við um þessi jól einfaldleika, frið og hvíld sem við þurfum á að halda til þess að geta endurnærst á sál og líkama.

Gleðileg jól og þakka áheyrnina.