Fréttir


Jarðhitaskóli Háskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi undirritar samstarfssamning við LaGeo í El Salvador

3.5.2019

Fimmtudaginn 2. maí var undirrituð viljayfirlýsing milli Jarðhitaskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi og jarðhitafyrirtækisins LaGeo í El Salvador um áframhaldandi samstarf á sviði jarðhitaþjálfunar og uppbyggingar jarðhitaþekkingar í Rómönsku Ameríku.

Jafnframt var undirritaður sérstakur samstarfsamningur til næstu tveggja ára milli þessara aðila um áframhaldandi rekstur 5-mánaða diplómanáms á spænsku fyrir Rómönsku Ameríku sem farið hefur fram við Háskóla El Salvador (University of El Salvador), en að mestu byggt á kennslu frá LaGeo, auk nokkurra íslenskra kennara frá Jarðhitaskólanum.  

Aðalstyrktaraðili námsins næstu tvö árin er utanríkisráðuneyti Íslands (UTR) ásamt Jarðhitaskólanum. Tekur UTR þar við hlutverki Norræna þróunarsjóðsins (NDF) sem var aðalstyrktaraðili námsins síðustu þrjú ár. Við þetta tækifæri var jafnframt undirritaður samningur milli UTR og Jarðhitaskólans um þennan fjárhagsstuðning.

4-manna sendisveit kom frá LaGeo vegna þessa viðburðar.  Þar var í forystu forseti fyrirtækisins, Lic. Ricardo Salvador Flores, sem undirritaði viljayfirlýsinguna og samninginn af hálfu LaGeo, Rosa Escobar og Kevin Padilla jarðhitafræðingar hjá LaGeo, auk fjölmiðlafulltrúa. Lúðvík S. Georgsson forstöðumaður Jarðhitaskólans undirritaði samningana fyrir hönd skólans og María Erla Marelsdóttir sendiherra fyrir hönd UTR. Rosa og Kevin hafa bæði stundað nám við Jarðhitaskólann á Íslandi. Kevin hefur haldið utan um þetta verkefni af hálfu LaGeo, en af hálfu Jarðhitaskólans hefur Ingimar G. Haraldsson, aðstoðarforstöðumaður haldið utan um verkefnið.

Jarðhiti er mjög mikilvægur fyrir El Salvador. Árið 2016 kom 24% af framleiddri raforku í landinu frá jarðhitaorkuverunum tveimur, Ahuachapan og Berlín, sem eru með framleiðslugetu upp á 204 MWe.

Mikilvægi aukinnar nýtingar á endurnýjanlegum orkugjöfum, skiptir í sífellu meira máli til að draga úr losun á gróðurhúsaloftegundum. Aðstoð Íslands við uppbyggingu endurnýjanlegrar orku, til framleiðslu rafmagns eða hitun húsa með jarðvarma, aðstoðar viðkomandi lönd efnahagslega, samfélagslega en ekki síst á sviði umhverfis- og loftslagsmála með minni notkun á jarðefnaeldsneyti.  Með verkefnum sem þessum getur Ísland hjálpað öðrum löndum til að nýta endurnýjanlega orku og draga þannig úr notkun jarðefnaeldsneytis og losun gróðurhúsalofttegunda sem gagnast öllum löndum óháð landamærum í baráttunni við hlýnun jarðar.