Jarðboranir hf. afhenda Orkustofnun borskýrslusafn
Jarðboranir hf. hafa afhent Orkustofnun borskýrslusafn sitt til skráningar og varðveislu. Safnið er mikið að vöxtum, að stórum hluta innbundið í vandaðar möppur og nær efni þess aftur til upphafs borholuskráningar hér á landi á fyrri hluta síðustu aldar. Safnið skiptist í meginatriðum í tvennt, þ.e. frá upphafi til 1986 þegar Jarðboranir voru aðgreindar frá Orkustofnun og svo borskýrslur Jarðborana hf. fram til ársins 2005.
Sem dæmi um umfangið má geta þess að skýrslurnar frá áðurnefndum tíma og tengdar upplýsingar fylla fimm vörubretti.
Stefnt er að því að skrá og skanna efni borskýrslusafnsins og gera það með tíð og tíma aðgengilegt í veflausnum eins og önnur söguleg gögn sem Orkustofnun hefur verið að birta að undanförnu á netinu.
Efni safnsins sem nú berst Orkustofnun er kærkomin viðbót við þær upplýsingar sem til eru á stofnuninni um borholur í landinu. Þekktasti gagnagrunnur stofnunarinnar er án efa “Borholuskrá”, en í hana eru skráðar upplýsingar um yfir 14.000 borholur hér á landi, boraðar allt frá árinu 1904.

Valdar upplýsingar úr skránni hafa verið settar fram á vefsíðu Orkustofnunar og í Kortasjá OS , þar sem mögulegt er að skoða staðsetningu á þeim borholum sem skráðar hafa verið með staðsetningarhnitum, auk þess sem þar má sjá eldri skýrslur, ljósmyndir og rannsóknagögn um margar eldri borholur.
Skýrslusafnið frá Jarðborunum mun gera það mögulegt að fylla umtalsvert inn í þessa mynd með miklu ítarefni sem mun nýtast fjölmörgum aðilum á mörgum sviðum samfélagsins.
Safnið verður um sinn varðveitt í húsnæði Orkustofnunar að Grensásvegi 9 í Reykjavík, en stefnt er að því að koma því síðar fyrir á Þjóðskjalasafni Íslands.
Aðgengi að upplýsingum úr borholuskrá Orkustofnunar í kortasjá stofnunarinnar: https://www.maps.is/os/
Leitarsíða fyrir upplýsingar úr borholuskrá Orkustofnunar á vef stofnunarinnar: https://orkustofnun.is/borholuleit
Nánari upplýsingar veitir Þorvaldur Bragason verkefnisstjóri hjá Orkustofnun, s. 569-6000.
Við undirritun samnings um afhendingu borskýrslusafns Jarðborana til Orkustofnunar: Guðni A. Jóhannesson orkumálastjóri og Sigurður Sigurðsson forstjóri Jarðborana hf.
Við undirritun samnings um afhendingu borskýrslusafns Jarðborana til Orkustofnunar: Frá vinstri: Sigurður Elías Hjaltason verkfræðingur, Þorvaldur Bragason verkefnisstjóri og Þórunn Erla Sighvats upplýsingafræðingur, starfsmenn Orkustofnunar, Guðni A. Jóhannesson orkumálastjóri, Sigurður Sigurðsson forstjóri Jarðborana hf., Garðar Sigurjónsson og Bjarni G. Guðmundsson verkefnisstjórar hjá Jarðborunum hf.
Starfsmenn Orkustofnunar og Jarðborana hf. við skoðun gagna úr borskýrslusafni sem afhent var Orkustofnun.
Þórunn Erla Sighvats upplýsingafræðingur, hjá Orkustofnun, sér um skönnun og skráningu