Fréttir


Guðni Axelsson tekur við starfi forstöðumanns Jarðhitaskólans

7.1.2020

Þann 1. janúar 2020 tók Dr. Guðni Axelsson jarðeðlisfræðingur við starfi forstöðumanns Jarðhitaskólans, sem fram á síðasta ár var tengdur Háskóla Sameinuðu þjóðanna (UNU), en er frá þessu ári tengdur Menningarmálastofnun þeirra (UNESCO). 

Guðni var ráðinn í október 2019 til að taka við stöðunni 1. janúar 2020, eftir umfjöllun og mat sérstakrar dómnefndar á umsækjendum um stöðuna. Áður hafði Lúðvík S. Georgsson gegnt starfi forstöðumanns frá árinu 2013. 

Guðni lauk BSc-prófi í eðlisfræði frá Háskóla Íslands 1978 og MSc-prófi í jarðeðlisfræði frá Department of Geophysics/School of Oceanography, Oregon State University, Corvallis, Oregon, 1980. Þá lauk hann doktorsprófi (PhD) í jarðeðlisfræði með sérhæfingu í forðafræði jarðhita frá sama skóla 1985, undir leiðsögn Gunnars heitins Böðvarssonar.

Frá því hann lauk námi hefur Guðni starfað hjá Íslenskum orkurannsóknum (ÍSOR) í Reykjavík og forverum þeirra, Jarðhitadeild og Rannsóknasviði Orkustofnunar, sem sérfræðingur í forðafræði jarðhita og verkefnisstjóri. Árin 2003-2014 var hann deildarstjóri eðlisfræðideildar ÍSOR og frá 2014 sviðsstjóri kennslu og þróunar á ÍSOR.

Guðni hefur starfað við forðafræðirannsóknir á Íslandi og víða um heim, með áherslu á líkanreikninga, vinnslueftirlit, stýringu langtímavinnslu, niðurdælingu, sjálfbærni og áreiðanleikakannanir. Hann hefur komið að rannsóknum allra háhitasvæða á Íslandi, sem nú eru nýtt, að rannsóknum langflestra lághitasvæða, sem nýtt eru fyrir hitaveitur á Íslandi, auk þess að vinna við og/eða stýra rannsóknarverkefnum í Kína, Tyrklandi, Kenýa, Austur-Evrópu, Mið-Ameríku og víðar. Hann hefur kennt við Jarðhitaskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna auk þess að hafa verið gestaprófessor í jarðhitavísindum við Verkfræði- og náttúruvísindasvið Háskóla Íslands og kennt við Háskólann í Reykjavík.

Guðni er kvæntur Svanfríði Franklínsdóttur kennara og bókasafns- og upplýsingafræðingi og eiga þau þrjú börn. 

Lúðvík S. Georgsson, sem nú lætur af störfum sem forstöðumaður Jarðhitaskólans, lauk námi sem verkfræðingur í eðlisverkfræði frá Tækniháskólanum í Lundi 1975 og hóf störf hjá Orkustofnun sama ár. Lúðvík hefur starfað hjá Jarðhitaskólanum síðan áramótin 1989-1990 fyrst sem aðstoðarforstöðumaður Jarðhitaskólans og síðar sem forstöðumaður Jarðhitaskólans frá árinu 2013. Lúðvík hefur tekið þátt í fjölbreyttu alþjóðlegu starfi skólans og átt þátt í uppbyggingu á starfsemi hans á umliðnum árum og er honum þakkað farsælt starf sem eflt hefur skólann umtalsvert.

Frá árinu 1979, þegar Jarðhitaskólinn var settur á laggirnar, fyrstur skólanna fjögurra sem starfað hafa undir merkjum Háskóla Sameinuðu þjóðanna, hafa 718 sérfræðingar frá 63 þróunarríkjum útskrifast frá skólanum og á annað þúsund sótt námskeið á vegum hans í nokkrum samstarfsríkjum. Framlag Íslands gegnum starfsemi Jarðhitaskólans hefur haft umtalsverð áhrif á uppbyggingu endurnýjanlegrar orkunýtingar í fjölda þróunarlanda, jafnt til raforkuframleiðslu sem til hitunar húsa með jarðvarma.  

Starfsemi Jarðhitaskólans hefur því hjálpað viðkomandi löndum við að draga verulega úr notkun jarðefnaeldsneytis og þar með losun gróðurhúsalofttegunda sem gagnast öllum löndum óháð landamærum. Þessi árangur sýnir vel að aðilar frá litlu landi eins og Íslandi geta tekið þátt í mikilvægum alþjóðlegum verkefnum með góðu skipulagi og fagmennsku. 

Frá og með 1. janúar 2020, munu skólarnir fjórir, sem starfað hafa undir hatti Háskóla Sameinuðu þjóðanna hér á landi, verða starfræktir undir nýju yfirheiti, þ.e. GRÓ Þekkingarmiðstöð þróunarsamvinnu (International Centre for Capacity Development – Sustainable Use of Natural Resources and Societal Change). Skólarnir munu þar með ljúka samstarfi sínu við Háskóla Sameinuðu þjóðanna, en hefja þess í stað samstarf við Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNESCO) í gegnum hina nýju miðstöð.