Fréttir


Framhaldsskóli Austur Skaftafellssýslu Evrópumeistari í olíuleit

29.1.2019

Annað árið í röð sigraði íslenskt lið í alþjóðlegri keppni framhaldsskóla þar sem hermt er eftir raunverulegum verkefnum sem olíuleitarfyrirtæki þurfa að leysa við sín störf.

Keppnin fer þannig fram að liðin vinna við OilSim olíuleitarhermi sem er hugbúnaður sem líkir eftir raunverulegum aðstæðum í olíuleit og eiga keppendur að finna olíu og markaðssetja hana á sem hagkvæmastan hátt.

Við úrlausn verkefnanna reynir á fjölþætta þekkingu á fjölmörgum fræðigreinum sem tengjast alþjóðlegum verkefnum á sviði olíuleitar og vinnslu s.s. jarðvísindi, verkfræði, umhverfis- og öryggismál og stjórnsýslu. Í OilSim herminum er keppt við aðstæður sem eru líkar þeim sem alþjóðleg olíuleitarfyrirtæki vinna við,  til dæmis að bjóða í úthlutanir svæða, leyfisveitingar, keppa um og velja réttu svæðin til borunar m.a. með tilliti til margvíslegra umhverfis- og öryggissjónarmiða, finna verkfræðilegar úrlausnir, hagkvæmnisútreikninga og margt fleira.

Orkustofnun hefur stutt þátttöku íslenskra framhaldsskóla í þessum lærdómsríka leik frá árinu 2010 en það er alþjóðlega ráðgjafafyrirtækið Schlumberger sem hefur haldið utan um keppnina í gegnum þjálfunarhluta sinn, NExT. Nánar má sjá um keppnina og fyrirkomulag hennar á heimasíðu Petrochallenge - hér .  

Framhaldsskóli Austur Skaftafellssýslu sigraði í undankeppni níu liða frá tveimur framhaldsskólum sem fram fór í Vestmannaeyjum fyrr í janúar og vann sér þar með rétt til að taka þátt í úrslitakeppninni sem haldin var í Cambridge 25.-27. janúar. Þar sýndu þeir að góður árangur Framhaldsskólans í Vestmannaeyjum fyrir ári var engin tilviljun. Í úrslitum sigraði FAS örugglega fulltrúa Noregs,  sem stendur einna fremst ríkja í olíuleit og -vinnslu með ábyrgum hætti og þar sem byggð hefur verið upp mikil þekking í þessum geira.

Olíufurstarnir snjöllu frá Höfn heita Björgvin Freyr Larsson, Júlíus Aron Larsson, Kristján Vilhelm Gunnarsson og Oddleifur Eiríksson. Kennari þeirra og fylgdarmaður var Hjördís Skírnisdóttir. Sjá má  nánar um keppnina og pistil um þátttöku FAS í henni á heimasíðu skólans.

Orkustofnun óskar FAS til hamingju með árangurinn og þakkar Schlumberger félaginu NExT fyrir samstarfið.


Sigurvegararnir frá Framhaldsskóla Austur- Skaftafellssýslu ásamt fulltrúum keppninnar

Verðlaunagripurinn góði

Einbeittir við olíuleit

(myndir: Schlumberger NexT og FAS)