Fréttir


Forstöðumaður Jarðhitaskólans

13.8.2019

Orkustofnun auglýsir stöðu forstöðumanns Jarðhitaskólans (JHS) lausa til umsóknar.

Sérstök valnefnd mun meta umsækjendur og raða þeim eftir hæfni.

Jarðhitaskólinn hefur almennt gengið undir nafninu Jarðhitaskóli Háskóla Sameinuðu þjóðanna, og starfar undir því heiti til ársloka 2019.  Frá upphafi árs 2020 er gert ráð fyrir tengslum og samvinnu við aðra alþjóðlega stofnun.

Helstu verkefni eru:
-      Að skipuleggja og stjórna starfsemi Jarðhitaskólans, og vera Orkumálastjóra og stjórn skólans til ráðgjafar í samræmi við samstarfssamning Íslands við þá alþjóðlegu stofnun, sem skólinn verður tengdur í framtíðinni.
-      Að vinna með systurstofnunum sínum á Íslandi (Sjávarútvegsskólanum, Landgræðsluskólanum og Jafnréttisskólanum), og styðja við myndun og starfsemi þeirrar stofnunar, sem er ætlað að verða sameiginlegur tengiliður skólanna á Íslandi við þessa alþjóðlegu stofnun og utanríkisráðuneytið.
-      Að bera ábyrgð á vali nemenda í jarðhitafræðum frá þróunarlöndum, í 6-mánaða þjálfun eða akademískt nám á Íslandi, og jafnframt efla eða koma á laggirnar samvinnu við viðeigandi stofnanir eða samstarfsaðila í þessum löndum.
-      Að bera ábyrgð á námskeiðum eða ráðstefnum sem skólinn stendur fyrir eða styður og haldin eru erlendis.
-      Að tryggja akademíska og hágæða stjórnun á starfsemi skólans, ekki síst í kennslu, þjálfun og ritgerðarvinnu nemenda.
-      Að vera ábyrgur fyrir skipulagningu, fjárhagsáætlun og rekstri skólans.

Upplýsingar um Jarðhitaskólann má finna á vefsíðu hans (www.unugtp.is). Frekari upplýsingar veita Orkumálastjóri og stjórnarformaður Jarðhitaskólans, Dr. Guðni A. Jóhannesson, eða núverandi forstöðumaður, Lúðvík S. Georgsson.

Grunnhæfniskröfur: 

-      Doktors- eða meistaragráða í jarðvísindum eða verkfræði.
-      Umtalsverð reynsla af jarðhitarannsóknum eða við þróun jarðhitanýtingar.
-      Reynsla í kennslu og leiðbeiningarstörfum nemenda á háskólastigi.
-      Góð kunnátta í enskri tungu, en starfsemi skólans fer að mestu fram á ensku.
-      Reynsla af störfum á alþjóða vettvangi.
-      Hæfni í mannlegum samskiptum.

Laun greiðast samkvæmt samningi milli fjármálaráðuneytis og viðeigandi stéttarfélags.  Skrifleg umsókn ásamt fylgiskjölum skal berast Orkustofnun, Grensásvegi 9, 108 Reykjavík, eða á tölvupóstfangið ods@os.is, eigi síðar en 2. september 2019.

Orkumálastjóri