Fréttir


Drög að borholureglum til umsagnar

5.7.2018

Orkustofnun hefur gert drög að reglum um borholur, sem lúta að skráningu, hönnun og frágangi borholna, sem og skil á upplýsingum til Orkustofnunar. Drögin eru til umsagnar almennings og hagsmunaaðila. Umsagnir berist fyrir 15. september 2018 á netfangið os@os.is eða með skriflegum hætti til stofnunarinnar.

Í lögum um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, nr. 57/1998 (auðlindalög) eru ýmis ákvæði sem varða skráningu, hönnun og frágang borholna og er þessum reglum ætlað að draga þau fram og gera aðilum auðveldara að fylgja þeim. Einnig er ætlunin að með þessum reglum verði ábyrgð á borholum skilgreind betur. Þá hefur verið skortur á upplýsingagjöf um borholur til Orkustofnunar, og er þessum reglum ætlað að bæta það. Orkustofnun hefur haldið skrá yfir borholur á Íslandi um áratugaskeið, og hefur hún verið aðgengileg almenningi á vefsvæði stofnunarinnar, og nú í nýrri kortasjá Orkustofnunar. Þessar reglur munu gera Orkustofnun betur kleift að halda borholuskránni uppfærðri til hagsbóta fyrir þá sem nýta sér þær upplýsingar sem í henni er að finna. 

Reglurnar sjálfar eru fremur almenns eðlis, og er ætlunin ekki að þær verði íþyngjandi fyrir þá aðila sem koma að borholumálum. Með reglunum fylgja eyðublöð sem skal skila til Orkustofnunar áður en að borun hefst (eyðublað 1), eftir að borun er lokið (eyðublað 2), og eftir að holu hefur verið varanlega lokað eftir að notkun hennar hefur verið hætt (eyðublað 3). Einnig fylgja með leiðbeiningar sem fjalla almennt um borholur, og gera betur grein fyrir ýmsum atriðum sem hafa skal í huga við borverk. Þá eru ítarlegar leiðbeiningar sem skýra það hvernig skal fylla út eyðublöðin sem fylgja reglunum. 

Fylgiskjöl:

1-Borholureglur-Drög til umsagnar

2-Borholureglur-Leiðbeiningar-Drög til umsagnar

3-Borholureglur-Eyðublað 1 - Tilkynning til OS um borun-Drög til umsagnar

4-Borholureglur-Eyðublað 2 - Gagnaskil til OS um borun-Drög til umsagnar

5-Borholureglur-Eyðublað 3 - Tilkynning til Os um varanlega lokun borholu-Drög til umsagnar