Fréttir


Austurland – kortlagning smávirkjanakosta

9.7.2020

Verkfræðistofan Vatnaskil hefur kortlagt fyrir Orkustofnun vænlega smávirkjanakosti í sveitarfélögum á Austurlandi. 

Lagt var upp með að finna kosti á stærðarbilinu 100 kWe upp í 10 MWe. Í grunninn er meðalrennsli í vatnsföllum ákvarðað út frá hæðarlíkani, meðalúrkomukorti og meðaluppgufunarkorti.

Náttúruleg orkugeta er svo ákvörðuð í farvegum vatnsfalla sem margfeldi hæðar og rennlis. Í kjölfarið eru vænlegustu inntakspunktar fyrir virkjun fundnir í hverju vatnsfalli, sem staðbundin hámörk í náttúrulegri orkugetu.

Hagstætt þvermál fallpípu er ákvarðað og fundinn hagstæðasti endapunktur í farveginum neðanstreymis. Þar sem skilyrði um afl og ásættanleg falltöp eru uppfyllt er kosturinn metinn verðugur nánari athugunar. Kennistærðir þeirra kosta eru settar fram í töflu, vatnasvið eru dregin og sýnd á myndum fyrir hvert sveitarfélag.

Til að meta miðlunarmöguleika við inntak er reiknað lónrými og hæð stíflu þ.a. miðla megi meðal- rennsli vatnsfalls innan 24 klst. Niðurstaðan er sú að 883 smávirkjanakostir eru til staðar, með heildarafl 1603 MWe. Mögulegur fjöldi virkjanakosta og þ.a.l. heildarafl er þó lægra, þar sem nokkur fjöldi kosta sem dregnir hafa verið fram hafa áhrif á virkjunarkosti í sama vatnsfalli.

Einnig er ljóst að kostir sem dregnir hafa verið fram geta líka verið erfiðir í framkvæmd eða verið ógerlegir af öðrum ástæðum.

Hafa ber í huga að tölum um orkugetu þarf að taka með fyrirvara, um algjöra frumathugun er að ræða sem hefur það að leiðarljósi að draga fram sem flesta kosti sem vert gæti verið að kanna nánar. 

Skýrsluna í heild má nálgast hér:  Austurland.  Kortlagning smávirkjanakosta