Fréttir


Athyglisverð erindi á ársfundi Orkustofnunar

4.6.2021

Ársfundur Orkustofnunar fór fram fimmtudaginn 29. apríl sl. og var einungis sendur út á vef stofnunarinnar. 

Í upphafi fundar flutti Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ferðamála- iðnaðar- og nýsköpunarráðherra ávarp. Í ávarpi sínu þakkaði ráðherrann Guðna A. Jóhannessyni orkumálastjóra fyrir störf hans sem orkumálastjóri,  sem hann hefur gegnt í rúm 13 ár, eða frá árinu 2008, og lætur af störfum í júní 2021.

Ráðherrann nefndi að orkustefnan varðaði veginn í átt að sjálfbærri orkuframtíð þar sem sett væri það markmið að ná kolefnishlutleysi fyrir 2040 og að verða óháð jarðefnaeldsneyti ekki síðar en 2050.

Þórdís sagði m.a: „Í fyrsta sinn höfum við Íslendingar sett okkur langtíma orkustefnu og skýra aðgerðaráætlun til að fylgja henni. Þau skjöl voru lögð fyrir Alþingi í byrjun þessa árs. Orkustefnan varðar veginn í átt að sjálfbærri orkuframtíð þar sem við meðal annars setjum okkur það markmið að ná kolefnishlutleysi fyrir 2040 og að verða óháð jarðefnaeldsneyti ekki síðar en 2050.  Að mínu mati helst mun fyrr, og fyrst allra þjóða. 

Orkustofnun leikur hér lykilhlutverk við að innleiða orkustefnuna og grípa þá bolta sem henni fylgja, leiða okkur inn í nýja tíma jafnt á sviði orkuöryggis, orkuskipta, orkunýtingar, nýrra orkukosta, jöfnunar orkukostnaðar og uppbyggingu innviða á landsvísu. Með sjálfbæra þróun að leiðarljósi þar sem jafnvægi ríkir á milli efnahagslegra, samfélagslegra og umhverfislegra þátta. Allt þetta er nánar útlistað í þeim 38 skilgreindu aðgerðum og verkefnum sem koma fram í aðgerðaáætlun orkustefnu.“

Í lokin þakkaði Þórdís Guðna fyrir hans þjónustu sem orkumálastjóri í rúm 13 ár, fyrir farsælt og gott samstarf þeirra á milli í rúm 4 ár og fyrir sérlega ánægjuleg kynni og ósk um farsæld. Ráðherra afhenti síðan Guðna lífseiga plöntu í kveðjugjöf.   

Guðni A. Jóhannesson fjallaði um þróun orkumála og Orkustofnunar síðn hann tók við og sagði m.a: „Ég hóf störf sem orkumálastjóri í ársbyrjun 2008. Þegar ég læt af störfum sem orkumálastjóri nú í lok aprílmánaðar verð ég búinn að gegna þessu starfi í 13 ár og 4 mánuði. Þá er líka liðin slétt hálf öld frá því að ég gekk á fund Guðmundar Pálmasonar og réði mig sem sumarmann við mælingar á landgrunninu á vegum Orkustofnunar. Það er óhætt að segja að þessi tími hefur ekki verið tími neinnar kyrrstöðu. Þótt stofnanir geti gagnvart almenningi virst hægfara og óumbreytanlegt gangverk þá er það ekki alltaf svo fyrir okkur sem reynum að finna okkur leið og fóta okkur á milli tannhjólanna.“

Orkumálastjóri sagði einnig: „Rammaáætlun hefur á síðasta áratug þróast frá því að vera alhliða verkfæri til þess að meta og raða virkjunarkostum m.t.t. nýtingar og verndar þar sem mismunandi sjónarmiðum var stefnt saman. Hún er nú orðin vettvangur mjög einhliða og langsóttra náttúruverndarsjónarmiða og langtíma frystigeymsla fyrir nýjar virkjanahugmyndir.“

Hann sagði einnig: „Þegar litið er til baka yfir þetta næstum 14 ára tímabil sem ég hef gegnt stöðu orkumálastjóra kemur mér fyrst í hug hversu hratt verkefnin og áherslurnar breytast í tímans rás. Starfsfólk Orkustofnunar býr yfir mikilli og fjölbreyttri menntun og reynslu sem kemur sér vel þegar það þarf að endurskipuleggja liðsheildina til þess að mæta nýjum og breyttum aðstæðum.“

Í lokin sagði Guðni: „Við vinnum í mikilli nánd við slagæðakerfi samfélagsins, tæknilega innviði og pólitíska umræðu og stefnumótun. Möguleikar okkar í orkumálum eru eitt af mikilvægustu fjöreggjum okkar til framtíðar og skera úr um það hvort afkomendur okkar finna sér tilvist á Íslandi með ásættanlegum lífskjörum og fjölbreyttum verkefnum sem veita skapandi starfsumhverfi og lífsfyllingu.“

Kristoffer Böttzauw, forstjóri Orkustofnunar Danmerkur fjallaði um orkustefnu Danmerkur, Green Deal og áherslur hjá stofnuninni. Í hans máli kom fram að helstu málin væru m.a. orkunýtni, alþjóðlegt samstarf, orkuauðlindir, framboð og eftirspurn á orku, orkugreiningar, orku- og loftslagsmál, fjarskipti, kerfisgreining o.fl. Þar starfa um 700 starfsmenn og stofnunin er ábyrg fyrir orkustefnu Danmerkur og hefur um 15 samstarfslönd víða um heim.

Þrátt fyrir að Danmörk væri lítið land eins og Ísland, vildu þeir sýna að Danmörk væri fyrirmynd á sviði orku- og loftslagsmála, til að sýna umheiminum að græn umbreyting væri bæði framkvæmanleg og fjármálalega möguleg. Hann fjallaði síðan um þróun orkuiðnaðarins og loftslagsmála og framtíðaráætlanir á því sviði og miklar áætlanir Danmerkur um uppbyggingu á vindorkugörðum á hafi úti – þar sem framleitt væri rafmagn sem síðan mætti breyta í önnur orkuform s.s. vetni. Mikil þróun er á því sviði bæði í Danmörku og reyndar um allan heim, en þó sérstaklega í Þýskalandi og næstu löndum. Hann minntist einnig á að á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar væri verið að vinna að sameiginlegri skýrslu um möguleika Norðurlandanna á sviði vetnis, en sú skýrsla kæmi út í haust og er Íslandi aðili að því starfi. 

Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets flutti síðan ávarp um áskoranir og tækifæri í orkustefnu Íslands. Í hans erindi kom fram að orkumarkaðurinn snertir í raun alla anga orkustefnunnar, s.s. er varðar orkuöryggi, orkuskipti og loftslagsmál, samkeppnishæfni, verðmyndun o.fl. Einnig kom fram að mikil uppbygging er framundan hjá Landsneti, þar sem raforkuflutningskerfið væri veikburða á mörgum svæðum og flutningsgeta með miklum takmörkunum, einkum þar sem línur væru ótraustar og gamlar. Hann nefndi einnig að traust og áfallaþolið flutningskerfi, flutningsgeta og skilvirkt regluverk, væri undirstaða fyrir orkunýtni, atvinnuþróun, orkuskipti, snjallvæðingu, baráttu í loftslagsmálum og nýsköpun. Hann nefndi að hlutverk Landsnets væri að breytast með breyttri tækni og aðstæðum, en mikil þróun hefði víða átt sér stað á orkumarkaði ekki síst innan Evrópu eins og heyra mátti í erindinu frá Danmörku.

Ragnar K. Ásmundsson, verkefnisstjóri Orkusjóðs og orkuverkefna, fjallaði um þróun sjóðsins og helstu verkefni sjóðsins framundan. Hann nefndi að Orkusjóður hefði unnið að bættri orkunýtingu með varmadælum sem hefði gefist vel víða um land þar sem ekki er jarðhiti. Síðan hefur sjóðurinn í vaxandi mæli sinnt rafhleðslustöðum fyrir bíla víða um land. Í lokin fjallaði hann um rafeldsneyti í formi ammoníaks, en öll þróun á því sviði er hröð, en tilraunaverkefni er nú í gangi á þessu sviði. Framundan eru síðan fjölbreytt verkefni er varðar orkuskipti. 

Sigurður I. Friðleifsson, framkvæmdastjóri Orkuseturs fjallaði síðan um síðustu vígi jarðefnaeldsneytis á Íslandi. Í hans erindi var fjallað um orkuskipti í tengslum víð baráttuna við loftslagsmálin. Ástæður orkuskipta væru m.a. ódýrari samgöngur, orkuöryggi, sparnaður, minni mengun og hávaði og bætt orkunýting. Hann fjallaði síðan um þróun á sviði orkuskipta er varðar einstaka bíltegundir, snjalllausnir og margt fleira.

Þórunn Erla Sighvats, sérfræðingur í upplýsingamálum hjá Orkustofnun fjallaði um orkuna og skjölin. Í sínu erindi fjallaði hún um þá stefnu Orkustofnunar að veita rafrænan aðgang að gagnasöfnum stofnunarinnar, sem innihalda fræðilegar rannsóknir og mælingar og spanna 100 ára sögu landsins. Þórunn lýsti síðan helstu atriðum á þessu sviði en söfnin innihalda m.a. orkugrunnkort, jarðkönnunarkort, gróðurkort, teikningasafn og borskýrslusafn. Öll þessi gögn hafa nú verið skráð rafrænt og frumritin afhent Þjóðskjalasafni til framtíðarvarðveislu. 

Í lokin fjölluðu Þorvaldur Bragason, verkefnisstjóri gagnamála Orkustofnunar og Sigurður Elías Hjaltason, sérfræðingur gagnagrunna um vefaðgengi að gögnum Orkustofnunar. Þeir lýstu aðgengi að gögnum og gagnasöfnum m.a. í gegnum vefsjár. Í þeirra máli kom m.a. fram að gerð landfræðilegra gagnasetta miðar yfirleitt að því að taka margvísleg staðtengjanleg gögn og skipa þeim í lagskiptar gagnaþekjur svo vinna megi með þau í landupplýsingakerfum og birta í kortasjám. Kortasjár birta gögnin eða upplýsingar um þau í vefumhverfi þar sem korta- eða myndgrunnur er undirliggjandi og öll gögnin eru tengd punkti, línu eða fláka. Í kortasjám mætti m.a. sjá staðsetningar virkjana, heimarafstöðva, leyfi, borholur og margvíslegar aðrar upplýsingar.

Upptökur af öllum erindum ársfundar Orkustofnunar eru aðgengilegar hér á vef stofnunarinnar.

Ársskýrsla Orkustofnunar fyrir árið 2020 er komin út - sjá skýrsluna hér.