Fréttir


Athyglisverð erindi á ársfundi Orkustofnunar

26.10.2020

Ársfundur Orkustofnunar fór fram fimmtudaginn 15. okt. sl. og var einungis sendur út á vef stofnunarinnar. Hægt er að sjá upptökur af öllum erindum fundarins hér.

Í upphafi flutti Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ferðamála- iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, ávarp þar sem hún fjallaði m.a. um langtíma orkustefnu fyrir Ísland, en hún nær til ársins 2050 og er fyrsta langtíma orkustefnan fyrir Ísland. Með stefnunni er miðað að því að gæta hagsmuna núverandi og komandi kynslóða, sjálfbær þróun er höfð að leiðarljósi með jafnvægi á milli efnahagslegra, samfélagslegra og umhverfislegra þátta. Orkustefnan kveður á um 12 megin markmið sem skiptast á 5 svið, orkuöryggi, orkuskipti, orkunýtni, umhverfisvernd og samfélagslegan ávinning. Sjá orkustefna.is

Ráðherra minnti einnig á nýja skýrslu um orkuöryggi á heildsölumarkaði sem er á dagskrá fundarins, en þar er að finna fjölda tillagna til úrbóta til að auka raforkuöryggi og virkni á raforkumarkaði.

Þórdís Kolbrún minntist einnig á erindi sendiherra Þýskalands um samstarf landanna á sviði vetnismála sem væri ótrúlega spennandi verkefni. Hún sagði að framleiðsla og notkun á grænu vetni sé mjög ofarlega á baugi í Evrópu um þessar mundir, sem liður í orkuskiptum og aðgerðum á sviði loftslagsmála. Í því felist hugsanlega möguleikar fyrir íslendinga með okkar endurnýjanlegu raforkuframleiðslu og með okkar markmið í orkuskiptum og loftslagsmálum. Þau tækifæri rími vel við áherslur okkar í stefnumótun jafnt á sviði orkumála, nýsköpunar og loftslagsmála. Þar sé möguleiki á að byggja upp nýja atvinnugrein á Íslandi, sem væri eitt og sér ótrúlega spennandi.

Ráðherrann sagði að fyrr í vikunni hefði fulltrúar íslenskra og þýskra stjórnvalda átt fund um áherslur þjóðanna á þessu sviði og hugsanlega möguleika á samstarfi. Þau mál eru nú til frekari skoðunar og hugsanlega er tíðinda að vænta á næstunni hvað það varðar. Auk þessara atriða fjallaði ráðherrann um ýmis önnur atriði á sviði orkumála sem ráðuneytið væri að vinna að. Ráðherrann nefndi einnig að í kjölfar innleiðingar á 3. orkupakka ESB á seinasta ári, hafi Raforkueftirlit Orkustofnunar orðið sjálfstæð og aðskilin eining innan Orkustofnunar sem tekist hefði vel. Að lokum þakkaði ráðherra Orkustofnun fyrir gott samstarf og faglega stjórnsýslu á sviði orkumála.

Í erindi orkumálastjóra, Guðna A. Jóhannessonar var m.a. fjallað um 3. orkupakkann og óvægin veðurskilyrði í lok sl. árs sem höfðu mikil áhrif á flutnings- og dreifikerfi raforku og rafmagnsleysi um lengri og skemmri tíma. Víða um land stóðust innviðir raforkukerfisins ekki það álag sem skapaðist vegna fárviðra með seltu og ísingu sem hlóðust á flutningsmannvirki. Hann sagði að okkur vilja gera vel og að landsmenn búi við sem best raforkuöryggi. Við megum hins vegar ekki blekkja okkur sjálf. Við verðum alltaf að verða viðbúin að hvar sem er á landinu geti rafmagnsnotendur þurft að þola rafmagnsleysi til lengri eða skemmri tíma. Á hverju heimili þarf að vera viðbúnaður þannig að menn geti haft til reiðu ljós, verið í fjarskiptasambandi og hlustað á útvarp. Þar sem menn búa afskekkt geta menn búist við að samgöngur geti lokast um lengri tíma, þar þarf einnig að vera fyrir hendi varakynding og einfaldur búnaður til matargerðar.

Mikill meirihluti orkufreks iðnaðar er knúinn af kolaorku. Orkumálastjóri sagði einnig að kolaorkuver losi rúmlega 1,2 kg af CO2 fyrir hverja kílówattstund sem þau framleiða. Ný tækni sem heiti CarbFix hefur nú verið þróuð og prófuð á Hellisheiði þar sem kostnaður vegna förgunar CO2 væri einungis 1/3 af kostnaði við förgun CO2 með öðrum aðferðum. Þetta væru fyrir honum stærstu fréttir liðinna ára af þróunarstarfi okkar í orkumálum. Hann nefndi einnig að græn vetnisframleiðsla væri afar áhugaverð. Orkumálastjóri þakkaði starfsfólki stofnunarinnar ábyrgð og fórnfýsi sem þau hafa sýnt við Corona vírusnum, hafa sýnt mikla aðgát við smitvarnir og leitað allra ráða við að halda starfseminni gangandi sem allra best. Að lokum þakkaði orkumálastjóri ráðherra gott samstarf.

Sendiherra Þýskalands, Dietrich Becker spurði m.a. að því hvort Ísland gæti verið hluti af því að byggja upp vetnishagkerfi i Þýskalandi. Hann sagði að vetnisstefna Þýskalands sem kynnt hefði verið á þessu ári, legði sérstaka áherslu á græna vetnisframleiðslu með grænni orku. Þýskaland hefði þegar hafið samstafi við Noreg um blátt vetni (vetni framleitt frá gasi) og einnig um förgun á CO2. Noregur er þegar í samstarfi við Holland um þróun í átt að vetnishagkerfi. Þróunin í þessum málum gerist hins vegar hratt. Hann nefndi einnig ýmis sambærileg verkefni í Þýskalandi, s.s. verkefni er varðar flugvöll í Hamborg. Slík framtíðarsýn um grænan flugvöll í Keflavík gæti einnig verið möguleg til framtíðar. Sendiherrann sagði að verkfræðilega framþróun á þessu svið á Íslandi sýndi að landið væri framarlega á sviði nýrra lausna er varðar eldsneyti, vetni og framleiðslu á eldsneyti sem byggði á endurnýjanlegri orku, sem gæti orðið grunnur að auknu samstarfi við Þýskaland.

Hann bauð íslenskum fyrirtækjum til samstarfs á þessu sviði og benti á mögulega fjármögnun frá Evrópusambandinu sem og frá þýskum sjóðum og átaksverkefnum. Þýskaland er núna að leita að samstarfsaðilum á sviði vetnisframleiðslu frá löndum með endurnýjanlega orku og stefna í vetnismálum Þýskalands væri nú mikilvægur hluti af stefnu þeirra í loftslagsmálum.

Guðrún Sævarsdóttur, dósent við Háskólann í Reykjavík og formaður nefndar um langtíma orkustefnu fyrir Ísland fjallaði um starf nefndarinnar og stefnuna. Í máli hennar kom fram að í stefnunni er fjallað um orkuþörf og orkuöryggi, flutningskerfi og dreifikerfi raforku, stuðning við atvinnustefnu og samspil orkustefnu við aðrar atvinnugreinar, aðgerðir á sviði orkuskipta og loftslagsmála og nýja tækni við orkuvinnslu. Stefnan endurspeglaði einnig þrjár víddir orkuþróunar – þ.e. efnahagsleg-, samfélagsleg og umhverfisleg atriði. Framtíðarsýnin er m.a. að Ísland sé land hreinnar orku þar sem öll orkuframleiðslan er af endurnýjanlegum uppruna og gegnir grundvallarhlutverki í baráttunni við loftslagsvána.

Hún sagði að markmið orkustefnunnar séu eftirfarandi: 1. orkuþörf samfélagsins sé ávallt uppfyllt; 2. innviðir séu traustir og áfallaþolnir; 3. orkukerfið sé fjölbreytt; , 4. Ísland sé óháð jarðefnaeldsneyti; , 5. orkunýtni sé bætt og sóun sé lágmörkuð; 6. auðlindastraumar séu fjölnýttir; 7. gætt sé að náttúruvernd við orkunýtingu; 8. umhverfisráhrif séu lágmörkuð; 9. nýting orkulinda sé sjálfbær; 10. þjóðin njóti ávinnings af orkulindunum; 11. orkumarkaðurinn sé virkur og samkeppnishæfur og 12. jafnt aðgengi sé að orku um allt land.

Lennart Bernram frá Svíþjóð fjallaði um orkuöryggi í tvær áttir. Hann fjallaði m.a. um orkuöryggi á tímum náttúrulegra truflana s.s. vegna storma frá sjó og salttruflana af þeim sökum á raforkukerfið. Hann fjallaði einnig um þá vinnu sem er í gangi víða að skipuleggja forgangsröðun innan raforkukerfisins þegar orkuskortur verður.

Kristín Haraldsdóttir lektor við lagadeild HR og formaður starfshópsins fjallaði um Skýrslu starfshóps um orkuöryggi á heildsölumarkaði fyrir raforku . Umfjöllunarefnið er raforkuöryggi, virkni á heildsölumarkaði og ábyrgð og úrræði og tillögur til útbóta. Meðal tillagna nefndarinnar má nefna að hlutverk Orkustofnunar á því sviði verði að skilgreina öryggismörk og að stofnunin vinni (eða feli Landsneti) öryggismat út frá áætlaðri þróun framleiðslugetu og eftirspurnar. Úrræði Orkustofnunar/Landsnets verði útboð valréttarsamninga um að draga úr notkun og útboð afltrygginga vegna framleiðslu. Einnig eru tillögur er varða sérstaka vernd notenda og að alþjónusta og hverjir njóta hennar verði skilgreind í lögum þar sem áhersla verður lögð á að tryggja sérstaklega framboð raforku til heimila og smærri fyrirtækja.

Anna Lilja Oddsdóttir og Jón Ásgeir Haukdal Þorvaldsson, sérfræðingar í orkuskiptateymi Orkustofnunar, fjölluðu um orkuskipti í samgöngum sem er mikilvægur hluti í aðgerðum vegna loftslagsmála. Í þeirra erindi kom fram að frá árinu 2015 hefur söluaðilum verið skylt að tryggja að minnst 5% af heildarorkugildi eldsneytis til notkunar í samgöngum á landi sé endurnýjanlegt og uppfylli sjálfbærniviðmið. Einnig kom fram að frá og með árinu 2020 skulu birgjar draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á hverja orkueiningu úr eldsneyti og afhentri orku um a.m.k. 6%.

Fram kom að hlutfall endurnýjanlegrar orku í samgöngum á landi hefur farið hækkandi á umliðnum árum og náði 9,2% árið 2019. Það gefur góða von um að markmið um 10% hlutdeild náist á árinu 2020. Endurnýjanlegu orkugjafarnir eru að megninu til lífeldsneyti sem notað eru til íblöndunar í dísil og bensín, eða um 5,6%. Tæp 3% má rekja til raforkunotkunar raf- og tengiltvinnbíla og að lokum tæpt 1% notkunar metans. Hlutfall nýskráðra bíla sem nota endurnýjanlegt eldsneyti fer hækkandi. Nýskráningarhlutfall nýorkufólksbíla (rafmagns-, tengiltvinn-, metan-, og vetnisbílar) náði 45% þegar 6 mánuðir voru liðnir af árinu 2020.

Um 300 manns fylgdust fundinum á vef Orkustofnunar, en engir gestir voru í fundarsal, heldur einungis þeir sem voru með erindi sem og tæknimenn auk fundarstjóra. Í fundarsal voru ræðumenn með grímur og 2 metra fjarlægðarreglan virt.

Upptökur af öllum erindum ársfundar Orkustofnunar, eru aðgengilegar hér á vef stofnunarinnar.

Ársskýrsla Orkustofnunar fyrir árið 2019 er komin út - sjá skýrsluna hér.