Fréttir


Árangursrík ráðstefna um samstarf á sviði jarðhita milli Íslands, Póllands og Rúmeníu, innan Uppbyggingarsjóðs EES

27.11.2019

Hinn 23. október hélt Orkustofnun ráðstefnu um verkefni Uppbyggingarsjóðs EES er varða endurnýjanlega orku, hitaveitur, orkunýtingu, umhverfismál og loftslag í Póllandi og Rúmeníu. Ráðstefnan var skipulögð í samvinnu við utanríkisráðuneytið, umhverfisráðuneytið í Póllandi, Innovation Norway í Rúmeníu og Uppbyggingarsjóð EES. 

Tæplega 30 manns frá ráðuneytum, stofnunum, fyrirtækjum, háskólum og borgum frá Póllandi og Rúmeníu mættu og um 50 manns frá íslenskum fyrirtækjum. 

Ráðstefnan skiptist i tvo hluta, annars vegar kynningar frá viðkomandi löndum og hins vegar tvíhliða viðræður um mögulegt samstarf á milli aðila frá Íslandi og viðkomandi landa, um verkefni á sviði jarðvarma, orkunýtingu o.fl. Fundurinn tókst vel og er mikilvægt skref vegna undirbúnings á samstarfi aðila í viðkomandi löndum vegna næstu áætlunar Uppbyggingarsjóðsins í Austur-, Mið- og Suður Evrópu, sem kemur til framkvæmda 2018-2024.   

Á ráðstefnunni fjölluðu fulltrúar frá ráðuneytum, stofnunum, háskólum og borgum og bæjum frá þessum löndum, um tækifæri á sviði endurnýjanlegrar orku og fyrirtæki frá Íslandi kynntu sína starfsemi. Jafnframt fór hluti fundarins í viðræður á milli fyrirtækja og aðila frá þessum löndum um hugsanlegt samstarf á grunni verkefna er varða endurnýjanlega orku, jarðvarma, orkunýtni o.fl.

Á fundinum kom fram að orku- og jarðhitaverkefni, kynningar, kennsla og þjálfun á seinasta tímabili sjóðsins hafi gengið vel s.s. í samstarfi á milli aðila á Íslandi og í Rúmeníu og Portúgal. Pólland er hins vegar nýtt land á komandi tímabili innan orkuhluta Uppbyggingarsjóðs EES.

Í erindum ræðumanna á fundinum sagði Jónas Ketilsson frá Orkustofnun, að efnahagslegur ávinningur fyrir Ísland af því að nota jarðhita í stað hitunar með olíu hafi verið mikill eða um 80 milljarðar Isk. á ári undanfarin ár. Tímasetning ráðstefnunnar nú væri einnig góð, þar sem útboð væru framundan á verkefnum í Póllandi, Rúmeníu og Búlgaríu. 

Þórir Ibsen sendiherra, minntist á að orkuáætlanirnar í Búlgaríu, Króatíu, Póllandi og Rúmeníu bjóða upp á fjölmörg tækifæri til fjármögnunar á jarðvarmaverkefnum. Í þeim efnum skiptir húshitun miklu máli. Hlutverk EES-styrkjanna er að styðja við verkefni sem efla félagslega og efnahagslega samheldni í Evrópu. Sjálfbær, áreiðanleg og umhverfisvæn húshitun er grundvallaratriði fyrir félagslegar framfarir og vellíðan.

Bogusz Piotr frá pólska umhverfisráðuneytinu, sagði að 140 milljónir evra færu í verkefni Uppbyggingarsjóðsins í Póllandi á sviði umhverfis-, orku- og loftslagsmál. Útboð verkefna myndu hefjast í byrjun árs 2020 og meirihluti sjóðsins 100 milljónir € (72%) væri til endurnýjanlegrar orku, orkunýtni og orkuöryggis.

Beata Kepinska og Leszek Pajak, frá Mineral & Energy Economy Research Institute, Polish Academy of Sciences, (Merri Pas), bentu á að stofnunin hefði langa og víðtækt þekkingu og reynslu á sviði rannsókna og af erlendri samvinnu. Stofnunin hefur unnið að tveimur EES jarðhitaverkefnum í samvinnu við Orkustofnun, the Geothermal energy potential in Poland – town Poddebice, 2016-2017 og verkefninu Geothermal energy – a basis for low-emission heating, improving living conditions and sustainable development, 2017. Einnig er verið að undirbúa nýtt verkefni í Póllandi með Orkustofnun, sem ber heitið Capacity Building of Key Stakeholders in the Area of Geothermal Energy 2020-2025.

Jacek Szymczak, frá Viðskiptaráði Hitaveitna í Póllandi, nefndi að um 400 fyrirtæki hafi leyfi til hitaveitu, uppsett afl sé 55 GW og lengd dreifikerfisins væri um 21.000 km og enn séu 72% hituð með kolum. Markmið á sviði hitaveitna væri að bæta loftgæði, draga úr áhrifum á loftslagsbreytingar og bæta orkuöryggi. Það væru því mikil verkefni framundan í endurbótum á hitaveitum í Póllandi.

Marcin Jamiolkowski, frá National Fund í Póllandi, nefndi að sjóðurinn hefði langa reynslu og mikla þekkingu þar sem 700 starfsmenn störfuðu hjá sjóðnum. Það er aukinn stuðningur við jarðvarma og allt að 145 milljónir evra í formi styrkja og/eða lána verða veitt til orkumála, auk þeirra 140 milljóna evra sem kæmu frá EES styrkjaáætluninni.

Raluca Fanaru, frá Innovation Norway í Rúmeníu, talaði um orkuáætlun og SME-áætlunina í Rúmeníu. Á næsta tímabili Uppbyggingarsjóðs EES til orkumála eru 29,8 milljónir evra fyrir endurnýjanlega orku, orkunýtingu, þjálfun og rannsóknir og þróun, rafvæðingu heimila og tvíhliða starfsemi. Útboðstími fyrir jarðhitaverkefni er liðinn en útboð á sviði orkunýtingar eru enn opin og hægt er að óska eftir ferðastuðningi vegna undirbúnings verkefna.

Adrian Foghis, Director Oradea Metropolitan Area, í Rúmeníu lýsti vel heppnuðu jarðvarmaverkefni frá síðasta styrktartímabili EES, sem fólst í nýrri niðurdælingarholu og að endurbæta hitaveitukerfið í Oradea með nýrri tækni og meiri sjálfvirkni, en í Ordea búa 250 þús. manns og hitaveitukerfið nær til um 64.000 íbúða auk fjölda stofnana og fyrirtækja. Auk þess vann Oradea í samvinnu við Orkustofnun einnig að öðru verkefni sem var Pre-Feasibility Study of Geothermal district heating in Oradea, 2017, en það verkefni nýtist við hönnun annarra hitaveituverkefna.

Ionut Tanase, Counsellour frá Ilfov í Rúmeníu, lýsti árangursríkum jarðhitaverkefnum á seinasta EEA tímabili, en verkefnið var að byggja upp hitaveitu fyrir sjúkrahús. Hann nefndi að fjölmörg tækifæri væru á sviði uppbyggingar jarðhita til húshiturnar á þessu svæði Rúmeníu.

Ráðstefna Orkustofnunar, var einnig skipulögð í samstarfi Sustainable District Heating Conference, (SDEC) sem haldin var 23.–25. október, en þá ráðstefnu gátu aðilar sótt í framhaldinu.

Tina Sölveberg, Senior Sector Officer á Financial Mechanism Office in Brussels, sótti SDEC ráðstefnuna og fjallaði um Uppbyggingarsjóð EES. Hún benti á að framkvæmdatímabil áætlunarinnar væri 2018-2024 og fjárhagsáætlun EES-styrkveitinga væri 1,5 milljarðar evra fyrir 15 aðildarríki ESB. Helstu markmið áætlunarinnar eru að draga úr mismunun og efla samvinnu. Ein helsta forgangsröðun áætlunarinnar er umhverfis- og orkuáætlunin og áætlun um nýsköpun og rannsóknir. Hún nefndi einnig að tímasetning þessarar ráðstefnu væri heppileg, þar sem verkefni innan áætlunarinnar færu í útboð í nokkrum löndum á næstu mánuðum eins og t.d. í Póllandi.

Ráðstefna Orkustofnunar var hluti af undirbúningi fyrir nýtt tímabilið hjá Uppbyggingarsjóði EES fyrir tímabilið 2014-2021 (framkvæmdatímabil 2018-2024) á sviði endurnýjanlegrar orku, uppbyggingu hitaveitna og orkunýtni í Póllandi og Rúmeníu, til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Undanfarna mánuði hefur Orkustofnun unnið að undirbúningi nýju áætlunarinnar í samvinnu við utanríkisráðuneytið á Íslandi og sambærilegar stofnanir í Noregi, og viðkomandi löndum í Austur- og Mið-Evrópu og EES-fjármálakerfisstofnuninni í Brussel. Fundarstjóri á ráðstefnu Orkustofnunar var Baldur Pétursson frá Orkustofnun. 

Meginmarkmið Uppbyggingarsjóðs EES er m.a. að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og auka orkuöryggi í viðkomandi löndum, meðal annars með því að auka notkun endurnýjanlegrar orku, með sérstakri áherslu á jarðhita og vatnsafl. Framlög og verkefni Uppbyggingarsjóðs EES eru einhver þau mestu sem Ísland og Noregur veita til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Í byrjun næsta árs mun Uppbyggingarsjóður EES, hefja útboð verkefna í Póllandi fyrir tímabilið 2014-2021, en slík útboð eru þegar hafin í Rúmeníu. Í Póllandi er upphæð verkefna um 140 milljónir €, eða um 20 milljarðar Isk., og auk þess mun umsækjendum standa til boða viðbótarlánsfjármögnun frá National Fund í Póllandi. Í Rúmeníu er upphæð verkefna um 29,8 milljónir € og í Búlgaríu um 13 milljónir €. Í þessum áætlunum eru nú þegar möguleikar á ferðastyrkjum til undirbúnings og samvinnu fyrirtækja og landa þar sem verkefni eru hafin eins og í Rúmeníu.

Frá árinu 2010 hefur Orkustofnun, að beiðni utanríkisráðuneytisins, haft aðkomu að og tekið þátt í verkefnum Uppbyggingarsjóðs EES í nokkrum löndum Austur- og Suður-Evrópu og er starfið kostað af sjóðnum, sem er hluti af EES samningnum. Vinna Orkustofnunar hefur verið í formi aðstoðar við mótun verkefna, kynningu á áætluninni hér á landi og í viðkomandi löndum, að efla samstarf á milli aðila, svæða og landa, framkvæmd, útboð og eftirlit áætlana á sviði endurnýjanlegrar orku í viðkomandi löndum, sjá nánar.

Jafnframt hefur Orkustofnun í samvinnu við erlenda og innlenda aðila, unnið að tvíhliða verkefnum í formi úttektar og stefnumótunar á mögulegum verkefnum í Rúmeníu (Oradea og Beius) í Póllandi í (Poddebice og öðrum bæjum og borgum) og Króatíu (sjá skýrslu). Þessi verkefni ættu að geta nýst vel við undirbúning stærri fjárfestingar- og útboðsverkefna fyrir aðila á markaði. Frekari upplýsingar um verkefnin framundan má sjá á vef Uppbyggingarsjóðs EES.

Ráðstefna var einnig skipulögð í tengslum við aðra ráðstefnu Sustainable District Energy Conference, SDEC, 23. - 25. október, í Reykjavík.

Allar kynningar frá Match Making ráðstefnu Orkustofnunar má sjá í dagskrá fundarins  og dagskrá og kynningar frá SDEC ráðstefnunni má sjá hér .