Árangur borunar lághitaborhola sem nýttar eru til hitaveitu á Íslandi
Út er komin skýrsla, unnin fyrir Orkustofnun, um árangur borunar lághitaborhola á jarðhitasvæðum sem nýtt eru af hitaveitum á Íslandi. Skýrslan var unnin af Birni Má Sveinbjörnssyni, en áður hafa komið út skýrslur um háhitaborholur og sjóðandi lághitaholur eftir sama höfund.
Skýrslunni er skipt niður eftir vinnslusvæðum þar sem fjallað er um borholur og vinnslu á hverju þeirra og aflgeta svæðisins er metin. Tekin voru saman gögn um 446 borholur, boraðar í 65 jarðhitasvæðum á árunum 1928-2017, og eru gögnin sótt í borholuskrá Orkustofnunar og borskýrslur. Af þessum holum heppnuðust 419, en 164 eru virkar vinnsluholur í dag. Meðalaldur borholanna er 46,6 ár, en sú elsta var boruð í Laugarnesi árið 1928. Meðalaldur virkra vinnsluhola var 32,9 ár. Meðaldýpt holanna var 752,3 m, en sú dýpsta var 3.085 m. Reykir í Mosfellsdal var metið vera öflugasta vinnslusvæðið, eða um 367 MWth þegar miðað er við nýtingu vatns niður að 35°C, en heildaraflgeta svæðanna sem skoðuð voru í skýrslunni var 1.770 MWth.
Skýrsluna má finna hér.