Fréttir


Alþjóðlegur dagur vatnsins 22. mars

22.3.2021

Hvers virði er vatnið?

Sameinuðu þjóðirnar hafa haldið upp á dag vatnsins þann 22. mars frá árinu 1993. Markmið Sþ með deginum er m.a. að auka vitund fólks á nauðsynlegu aðgengi að hreinu vatni en í dag skortir um 2,3 milljarð manna aðgang að öruggu vatni. Eitt af Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna er einmitt að tryggja aðgengi allra að hreinu vatni og tryggja sjálfbærni á nýtingu þess.

Í ár hvetja Sameinuðu þjóðirnar okkur til þess að við hugsum um hvers virði vatnið er.

En ég?

Hér á Íslandi höfum við tekið aðgengi að nægu hreinu vatni svo gott sem sjálfsögðum hlut og oft vill gleymast að hér er um verðmæta og viðkvæma auðlind að ræða.

Heilnæmt vatn í nægu magni er forsenda flests sem við tökum okkur fyrir hendur og flestra þeirra framleiðniferla sem við byggjum hagsæld landsins á. Heitt og kalt vatn auk þess er samtvinnað orkuframleiðslu landsins í mun meira mæli en á flestum öðrum stöðum.

Vatn er þannig mjög stór hluti af lífsgæðum Íslendinga. En það eru blikur á lofti og mikilvægt að huga að áherslum með langtímamarkmið að leiðarljósi. Aukinn þéttleiki byggðar og áhersla á framleiðslu sem byggir á nýtingu vatns, s.s. fiskeldi, geta orsakað vatnstöku umfram svæðisbundna getu, haft áhrif á vatnafarslega eiginleika vatns auk þess sem loftslagsbreytingar geta aukið álag á vatn.

Á degi vatnsins í ár er einmitt ástæða til þess að hugleiða hvers virði vatnið er fyrir okkur og hvað við getum gert til að viðhalda þeim lífsgæðum sem fylgja öruggu framboði af hreinu vatni. Vatn er mikilvæg auðlind fyrir hag og lífsgæði þjóðarinnar og það er samfélagsleg ábyrgð að tryggja gæði auðlindarinnar og sjálfbæra nýtingu hennar til framtíðar.

Orkustofnun er stjórnsýslustofnun vatnsauðlinda og veitir leyfi til nýtingar yfirborðsvatns, grunnvatns og jarðhita, bæði til beinnar nýtingar og sem orkulind til rafmagnsframleiðslu og hitaveitu. Við leyfisveitingar gætir stofnunin þess að nýting sé með þeim hætti að tekið sé tillit til umhverfissjónarmiða, nýting sé hagkvæm frá þjóðhagslegu sjónarmiði og að tekið sé tillit til nýtingar sem þegar er hafin í næsta nágrenni. Orkustofnun er ein af þeim stofnunum sem eiga aðild að Íslensku vatnafræðinefndinni á vegum UNESCO.

Til hamingju með daginn!