Afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum
Út er komin fjórða skýrsla ráðgjafahóps, sem iðnaðarráðherra skipaði upphaflega árið 2009, til þess að meta leiðir til að bæta raforkuöryggi á Vestfjörðum.
Hópurinn skilaði fyrstu niðurstöðum sínum í febrúar 2011. Könnun ráðgjafahópsins um málið, leiddi í ljós að um helmingur fyrirtækja sem svöruðu, töldu sig hafa orðið fyrir beinu tjóni vegna stöðvunar framleiðslu og tjóns á búnaði. Einnig kom fram að notendum þykir ótækt að greiða sambærilegt verð og hjá öðrum orkufyrirtækjum þegar þjónustan er mun lakari. Í skýrslunni voru lagðar til ýmsar aðgerðir til að bæta afhendingaröryggi á Vestfjörðum.
Til að fylgja eftir þeim tillögum sem fram komu. var ákveðið að koma á fót föstum samstarfshópi sem hefur eftirfarandi verkefni:
- Afla reglulega upplýsinga um þróun afhendingaröryggis og gæði raforku og uppsetts varaafls á Vestfjörðum, annars vegar með tölulegum upplýsingum frá raforkufyrirtækjum og hins vegar með könnunum á viðhorfi notenda líkt og gert var í skýrslu ráðgjafahópsins.
- Fara yfir áætlanir flutnings- og dreififyrirtækja varðandi uppbyggingu og endurbætur á raforkukerfinu og tímasetningar og forgangsröðun þar að lútandi.
- Fylgjast með áætlanagerð Landsnets vegna mögulegrar styrkingar Vesturlínu og hringtenginga raforkuflutnings fyrir Vestfirði.
- Hafa frumkvæði að því að á næstu 4 árum verði gerð sérstök rammaáætlun fyrir raforkuframleiðslu og raforkuflutning á Vestfjörðum sem nái til minni og stærri virkjanakosta.
Í samstarfshópinn voru skipuð, í apríl 2011 þau:
- Guðni A. Jóhannesson, orkumálastjóri, formaður
- Ásthildur Sturludóttir, og síðar í stað hennar, Rebekka Hilmarsdóttir bæjarstjóri Vesturbyggðar.
- Eyrún Linnet, sérfræðingur, Landsneti og síðar í stað hennar, Árni Jón Elíasson, sérfræðingur, Landsneti
- Guðmundur V. Magnússon, þáverandi framkvæmdastjóri Íslenska kalkþörungafélagsins, nú tæknistjóri Arnarlax.
- Kristín Hálfdánsdóttir, þáverandi rekstrarstjóri Landflutninga/Samskips
- Kristján Haraldsson, orkubússtjóri og síðar í stað hans, Elías Jónatansson, orkubússtjóri
- Oddný S. Þórðardóttir og síðar Eva Sigurbjörnsdóttir , oddviti Árneshrepp
Helstu tillögur hópsins eru eftirfarandi:
- Samræma vegagerð og strenglagnir vegna raforkuflutnings og dreifingar.
- Skipuleg vinna með afrennsliskort til þess að greina möguleika á minni og stærri vatnsaflskostum.
- Skoðun á minni og öðruvísi virkjanakostum á Glámu hálendinu (Kjálkafjörður).
- Skoða þarf að setja löggjöf sem kveður á um skyldu um myndun vatnsnýtingarfélags á hverju einstöku vatnasvæði. Þannig er komið í veg fyrir að litlir eigendur geti stöðvað virkjanaframkvæmdir.
- Efnahagsleg og félagsleg greining á þýðingu jarðhita fyrir minni byggðarlög.
- Kanna þarf leiðir til þess að greiða niður eignastofn vegna dreifingar raforku í dreifbýli.
- Skoða betur möguleika á uppsetningu lághitavirkjana á svæðum sem eru með yfir 100°C hita.
- Frekari kortlagning á jarðhitakostum á Vestfjörðum.
Höfundar efnis í fjórðu skýrslunni eru starfsmenn Landsnets, Orkubús Vestfjarða og Orkustofnunar
Samstarfshópurinn skilaði fyrri skýrslum til ráðherra árin 2012 , 2013 og 2014 og er þessi nýja skýrsla því fjórða skýrslan sem hópurinn hefur gefið út.
Skýrsluna má nálgast hér: Afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum