Fréttir


Áfangaskil Orkustofnunar til verkefnisstjórnar fjórða áfanga rammaáætlunar

17.4.2020

Orkustofnun hefur að ósk verkefnisstjórnar fjórða áfanga rammaáætlunar sent henni gögn um 43 nýja virkjunarkosti, sem bætast þar með við þá kosti sem skilgreindir voru í þriðja áfanga. Kallað var eftir gögnum frá aðilum í tveimur áföngum. Fyrsti hlutinn með gögnum um 12 kosti var sendur 1. febrúar sl. og sá síðari með gögnum um 31 kost 1. apríl sl.

Af þessum 43 virkjunarkostum eru 7 í vatnsafli, 2 í jarðhita og 34 í vindorku. Orkustofnun hefur yfirfarið framlögð gögn af sinni hálfu um virkjunarkosti í vatnsafli og jarðhita, en í ljósi óvissu um lagalega stöðu vindorkunnar gagnvart rammaáætlun hefur stofnunin sent áfram gögn um þá kosti til verkefnisstjórnar án þess að yfirfara gögnin sérstaklega af sinni hálfu. Hafa vindorkukostirnir því fengið sömu meðferð af hálfu Orkustofnunar og viðhöfð var í þriðja áfanga rammaáætlunar.

Yfirlit um virkjunarkostina má sjá hér á töflu og korti, er sýnir staðsetningu þeirra.

Samkvæmt frétt Orkustofnunnar, 24. okt. 2019, var frestur til móttöku virkjunarhugmynda í fjórða áfanga settur 1. mars 2020. Í ljósi þess að Alþingi mun ekki taka 3. áfanga rammaáætlunar til afgreiðslu á yfirstandandi þingi telur Orkustofnun að fyrri áætlanir um endanleg tímamörk fyrir skil á virkjunarkostum í fjórða áfanga rammaáætlunar þarfnist endurskoðunar. Því hefur Orkustofnun ákveðið að framlengja frest til móttöku virkjunarhugmynda, að sinni um óákveðinn tíma.

Orkustofnun hefur ekki lokið uppfærslu á kostnaðarflokkagreiningu fyrir virkjunarkosti, þannig að nýir kostir verði samanburðarhæfir við eldri kosti. Í því ljósi hefur stofnunin enn ekki rýnt kostnaðarflokkagreiningu á nýjum kostum frá aðilum. Öll aðalatriði varðandi tilhögun virkjunarkostanna liggja þó fyrir og ætti þetta því ekki að hamla vinnu verkefnisstjórnar við þá kosti sem hér eru lagðir fram að svo stöddu.