Svæði og gögn

Olíuleitarsvæði

Á landgrunni Íslands eru tvö svæði þar sem talið er mögulegt að finna jarðolíu eða jarðgas í nýtanlegu magni. Þetta eru Drekasvæðið austur og norðaustur af landinu og Gammsvæðið úti fyrir  Norðurlandi.

Drekasvæðið

nær m.a. yfir suðurenda Jan Mayen hryggjarins sem er meginlandsfleki. Háskólastofnanir hafa staðið að töluverðum rannsóknum á Jan Mayen hryggnum, en einnig hafa íslensk og norsk stjórnvöld staðið að sameiginlegum mælingum á svæðinu ásamt því að einkaaðilar hafa staðið að rannsóknum á svæðinu. Fyrirliggjandi gögn benda til þess að um sé að ræða þykkt lag af meginlandsbergi á svæðinu, og að í jarðlagastaflanum sé mögulega að finna móðurberg frá af Júra- og/eða Krítartímabilunum. Lengi hefur verið vitað um olíumöguleika á Drekasvæðinu, m.a. vegna jarðfræðilegs skyldleika svæðisins við setlagatrog á Austur-Grænlandi, landgrunn Vestur-Noregs og landgrunn Færeyja og Hjaltlands. Vitað er að olía hefur myndast á Austur-Grænlandi og á hinum svæðunum hefur hún þegar fundist í vinnanlegu magni.

Umhverfismat áætlunar hefur verið unnið fyrir norðanvert Drekasvæðið þannig að heimilt er að veita sérleyfi til rannsóknar og vinnslu á því svæði.

Gammsvæðið

er frekar ungt setlagatrog, eða um 9 milljón ára gamalt, en þar eru allt að 4 km þykk setlög. Ummerki finnast á svæðinu um að gasuppsprettur frá hafsbotninum, en ekki hefur fengist staðfest hvers konar gas sé að ræða, þ.e. hvort um sé að ræða jarðolíugas frá móðurbergi djúpt í jarðlagastaflanum eða hvort þetta sé gas myndað við niðurbrot lífrænna efna, sbr. mýrargas. Nýlega lét Orkustofnun vinna og gefa út yfirlitskýrslu um stöðu þekkingar á olíumöguleikum á Gammsvæðinu, en skýrsluna má nálgast hér (skýrslan er á ensku).