Þversnið af jarðlögum

Þversnið af jarðlögum

Almennt  er  talið  að  Jan  Mayen‐hryggurinn sé  meginlandsfleki  sem  klofnað  hefur  frá meginlandi  Grænlands,  en  þessi  fleki  hefur,  sökum  flókinnar  opnunarsögu  Noregs‐Grænlands hafsins (norðaustur Atlantshafsins), færst með landrekinu frá Grænlandi og út á miðjan hafsbotn norðaustur Atlantshafsins

Niðurstöður úr hljóðendurvarpsmælingar skýna innri gerð hryggjarins, eða  flekans  að  nokkru.  Þar  sjást  dæmigerð  einkenni  meginlandsskorpu  sem  hefur teygst,  brotnað  upp  og  stórar  blokkir  snarast.  Vegna  eldvirkni  á  svæðinu  í  upphafi tertíer tímabilsins (tafla 1) er víða takmarkað hvað hægt er að sjá með hljóðendurvarps mælingum niður í gegnum hraunlögin sem þekja stór svæði, sérstaklega á syðri hluta Jan Mayen‐hryggjarins. Þrátt fyrir þetta sjást jarðlögin víða undir hrauna‐ og innskotaþekjunni og eru sterkar vísbendingar í þá átt að um setlög sé að ræða, en aldur þeirra er óviss vegna skorts á gögnum sem fengjust með borholum.

Saga  svæðisins  milli  Noregs  og  Grænlands  einkennist  af  gliðnun,  allt  aftur  á  perm-tímabilið.  Því  hefur  töluvert  af  seti  hlaðist  upp  á  öllu  þessu  tímabili  fram  að  opnun norðaustur  Atlantshafsins.  Teljast  verður  líklegt  að  undir  hraunbreiðunum  geti  því leynst auðlindir. Þessi setlög, sem geta verið allt að 250 milljón ára gömul, hafa grafist djúpt og hitnað þannig að lífræna efnið í þeim gæti hafa ummyndast yfir í olíu og gas.

Út  frá  hljóðendurvarpsmælingum  er  þó  hægt  að  skoða  með  nákvæmni  jarðlagauppbygginguna eftir að rekið hófst. Lýsandi þversnið yfir Jan Mayen‐hrygginn er sýnt á myndinni. Þar má greinilega sjá hvernig jarðlagauppbyggingin og jarðhnik hefur verið frá opnun norðaustur Atlantshafsins.

  1.   Dökkguli liturinn er að öllum líkindum setlög frá því fyrir tíma reksins. Víða á Jan Mayen‐hryggnum, sérstaklega á meginhryggnum, sést niður í jarðlög sem eru eldri en eldvirknin á svæðinu. Einnig eru vísbendingar um að þessi lög séu vestanmegin við hrygginn. Nákvæmur aldur og gerð laganna er ekki þekkt.
  2. Fjólublái liturinn markar rek og eldvirkni á svæðinu. Basalt rennur út yfir og þrýstist inn (innskot) í jarðlögin út frá gosbeltinu.  Með  síendurteknum  eldgosum, ásamt  stöðugu  reki  út  frá  rekásnum,  hleðst  basaltið  upp  og  eldri  hraunlög  síga   smám saman niður. Verða því jarðlögin hallandi inn að mestu jarðlagauppbyggingunni  ("seaward  dipping  reflectors").  Er  þetta  sama  ferlið  og  sjá  má  í  hallandi  jarðlögum á Íslandi, austan‐ og vestanverðu. Þessi eldvirkni er eingöngu tengd Ægishryggnum.
  3. Appelsínuguli  liturinn  sýnir  setlagauppbygginguna  eftir  að  Jan  Mayen‐hrygginn hefur rekið nægilega langt frá rekás Ægishryggjarins til að basaltuppbyggingin nái ekki inn á svæðið. Þetta set er fyrst og fremst ættað frá Grænlandi, enda hryggurinn enn fastur við meginlandið í vestri. Sjá má þó merki um syllur (lárétt basaltinnskot) inni á milli setlagana austast í sniðinu.
  4. Blái  liturinn  sýnir  setlög  sem  myndast  á  sama  tíma  og  rekið  er  smám  saman  að færast yfir á Kolbeinseyjarhrygginn. Allt svæðið hefur lyfst upp fyrir sjávarmál og mikið rof verður ofan af Jan Mayen‐hryggnum, allt að 1000–1500 metrar. Leggjast setlögin aðallega til austurs og vesturs út frá honum. Jarðskorpan vestan megin við hrygginn hefur teygst og brotnað upp, þegar virkni Kolbeinseyjarhryggjarins gætir í  vestri,  og  leggjast  setlögin  þar  yfir  stórar  misgengisblokkir  af  eldri  hraunum  og setlögum.  Tímabilinu  lauk  með  því  að  víðáttumikil  breiða  af  hraunum  og/eða innskotum  þakti  slétturnar  vestur  af  hryggnum  áður  en  eiginlegt  rek  hófst  á Kolbeinseyjarhrygg.
  5. Ljósbrúnn  litur  sýnir  að  lokum  setmyndun  á  í  rólegu  umhverfi  á  hafsbotni.  Jan Mayen‐hryggurinn  hefur  sigið  aftur  vel  niður  fyrir  sjávarmál  þar  sem  hann  hefur fjarlægst verulega Kolbeinseyjarhrygginn og áhrifa hans gætir mun minna en áður.