Auðlindamat

Kort sem sýnir auðlindamat

Þó að ýmsar vísbendingar séu fyrir hendi er varðar hugsanlegar olíu‐ og gaslindir á Jan Mayen‐svæðinu, verður að hafa það í huga að engar óyggjandi vísbendingar hafa enn komið fram. Endanlegrar niðurstöðu er að líkindum ekki að vænta fyrr en boranir hafa farið fram, og jafnvel ekki fyrr en niðurstöður nokkurra borana liggja fyrir.

Eins og lauslega hefur verið imprað hér að framan er eitt stærsta vandamálið við kortlagningu setlaganna  með  hljóðendurvarpsmælingum  það  að  basaltþekjan,  sem  myndaðist  í upphafi reksins, hylur bróðurpartinn af svæðinu, sérstaklega syðri hlutann. Víða er þó hægt að sjá í eldra set undir basaltinu. Basalthulan tvístrar og endurkastar megninu af hljóðinu sem notað er til kortlagningar staflans, en það getur dregið verulega úr þeim upplýsingum sem hægt er að vinna úr. Á þeim svæðum sem upplýsingar fást má sjá jarðlög sem hugsanlega gætu innihaldið olíu og gas. Frekari rannsóknir gætu leitt það í ljós.

Lauslega  er  hægt  að  flokka  svæðin  innan  norður  hluta  Drekasvæðisins  í  þrennt,  eftir því hversu aðgengileg þau eru með tilliti til frekari rannsókna og hvar helstu líkur séu á að olíu‐ og gaslindir sé að finna miðað við þær upplýsingar sem núna eru fyrir hendi.

  1. Aðal  hryggjasvæðið  þar  sem  hraun  og  innskot  takmarka  ekki  rannsóknir  með hljóðendurvarpsmælingum. Þetta er aðgengilegasta svæðið.
  2. Svæði  hulin  hraunlögum  eða  innskotum  þar  sem  líkur  eru  á  eldri  setlögum undir. 
  3. Jaðarsvæði sem liggja nálægt eða á úthafsskorpu. Þetta eru svæðin norðvestast og suðaustast á norðurhluta Drekasvæðisins.

Aðgengilegustu svæðin innan norðurhluta Drekasvæðisins til frekari rannsókna eru þá um 10000 ferkílómetrar, yfir suðurhryggjakerfinu og syðsta hluta meginhryggjarins.