Lög og reglugerðir

Lög nr. 13/2001 eiga við um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis utan netlaga í landhelgi, efnahagslögsögu og landgrunni Íslands. Með stoð í lögunum hafa verið settar reglugerð nr. 884/2011 og reglugerð 39/2009 með síðari breytingum. Auk áðurnefndra laga og reglugerða, er kolvetnisstarfsemi undirorpin annarri innlendri löggjöf s.s. varðandi skattlagningu og umhverfis- og vinnuvernd. Sérstök skattlagning í samræmi við lög nr. 109/2011 um skattlagningu kolvetnisvinnslu kemur til viðbótar við hinn almenna fyrirtækjaskatt, sem er 20% á Íslandi.
Um landgrunnið á svæðinu milli Íslands og Noregs gilda samkomulag við Noreg frá 22. október 1981, bókun frá 3. nóvember 2008 (skjal á ensku) um útfærslu á gagnkvæmri hlutdeild í leyfum á samningssvæðinu við Jan Mayen hrygg og samningur við Noreg um einingarnýtingu kolvetnisauðlinda yfir lögsögumörk frá 3. nóvember 2008.
Íslenska ríkið er eigandi kolvetnis í landhelgi, efnahagslögsögu og landgrunni Íslands. Orkustofnun veitir leyfi til leitar, rannsóknar og vinnslu kolvetnis.
Orkustofnun annast eftirlit með starfsemi tengdri leit, rannsóknum og vinnslu kolvetnis og varðveislu á gögnum sem safnast við slíka starfsemi. Í samræmi við lög nr. 13/2001 starfrækir og leiðir Orkustofnun samráðshóps eftirlitsaðila vegna leitar, rannsókna og vinnslu kolvetnis við Ísland. Í samráðshópnum skulu sitja 11 fulltrúar skipaðir af Brunamálastofnun, Flugmálastjórn Íslands, Geislavörnum ríkisins, Hafrannsóknastofnuninni, Landhelgisgæslu Íslands, Náttúrufræðistofnun Íslands, Orkustofnun, Siglingastofnun Íslands, Skipulagsstofnun, Umhverfisstofnun og Vinnueftirliti ríkisins. Hlutverk samráðshópsins skal m.a. vera að tryggja upplýsingaskipti og samræma opinbert eftirlit vegna leitar, rannsókna og vinnslu kolvetnis við Ísland.
Ísland er aðili að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið (EES). Tilskipun Evrópusambandsins nr. 94/22/EC tekur því til um leitar, rannsóknar og vinnslu kolvetnis við Ísland, ásamt annarri löggjöf ESB þar að lútandi og tekin hefur verið upp í EES -samningnum.