Leyfisveitingar

Leyfi til rannsókna og vinnslu
Leyfi til rannsókna og vinnslu á kolvetni eru sérleyfi og veitt í kjölfar útboðs í samræmi við ákvæði laga nr. 13/2001. Í nánar tilteknum tilvikum er heimilt að taka til greina umsóknir utan útboðstímabils í samræmi við 5. mgr. 8 gr. laga nr. 13/2001 og grein 3(3) tilskipunar 94/22/EB.
Leyfi til rannsóknar og vinnslu kolvetnis eru veitt til allt að 12 ára en heimilt er að framlengja það til allt að tveggja ára í senn. Hámarksgildistími leyfis til rannsókna skal þó ekki vera lengri en 16 ár. Að uppfylltum þeim skilyrðum sem sett eru fyrir rannsóknum, á leyfishafi forgangsrétt á framlengingu leyfisins til vinnslu kolvetnis í allt að 30 ár.
Nánari upplýsingar um olíuleit við Ísland er að finna í kynningarbæklingi (á ensku) sem Orkustofnun hefur útbúið.
Leyfi til leitar
Leyfi til leitar að kolvetni eru veitt til að hámarki til þriggja ára, og veita heimild til leitar með ýmsum jarðeðlis- og jarðefnafræðilegum aðferðum, sýnatöku af jarðlögum hafsbotnsins án borunar og borunar eftir sýnum af jarðlögum allt að 25 metrum niður fyrir hafsbotn. Leyfi til leitar að kolvetni er ekki sérleyfi og veitir leyfishafa ekki rétt til borunar eftir kolvetni, vinnslu kolvetnis eða forgangsrétt til að fá slíkt leyfi síðar.
Tekið er við umsóknum um leitarleyfi á öllum tímum, þ.e. er ekki háð sérstakri opnun svæðis eða útboðsferli.